138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja eftir hrun. Ég er meðflutningsmaður þess og mjög fylgjandi málinu og tel mjög brýnt að það nái fram að ganga.

Við höfum fjallað ítarlega um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hún er mjög góð, virkilega góð, þótt á henni séu nokkrir hnökrar. Hún nær þó eiginlega bara fram að hruni. Þótt það hafi verið heimild í lögum um að rannsóknarnefnd tæki líka stöðuna eftir hrun, þá fjallaði hún um stöðuna fyrir hrun og var mjög lærdómsrík og skörp að því leyti. Hins vegar vantar það sem er að gerast núna. Þá sem eru að vinna núna vantar vitneskju um að þetta verði skoðað. Ég held að það væri mjög gott til að auka aðhald í kerfinu. Það hvílir mjög mikil dulúð yfir þessum málum. Menn veifa bankaleyndinni stöðugt og eru mjög uppteknir af því að gefa sem minnstar upplýsingar. Það er sagt eitthvað um samkeppnisstöðu og slíkt og að ekki megi upplýsa um mjög marga þætti.

Það er hins vegar staðreynd að talið er að skuldir íslenska bankakerfisins eða fyrirtækja hafi verið um 12.000 milljarðar þegar hrunið varð. Helminginn þarf að afskrifa, þ.e. það eru um 6.000 milljarðar, sem erlendir aðilar aðallega tapa á íslensku atvinnulífi. Þetta eru óskaplegar tölur. Aðeins 1% af því er um 50 milljarðar. Í fyrirtækjum er ekki óalgengt að fjallað sé um 50 milljarða. Þegar menn tala um 50 milljarða þá er 1% af því skekkjumörk. Það eru hvorki meira né minna en 500 millj. kr. Þegar einstaklingar fjalla um svona atriði og eru kannski með þetta í ævilaun — þetta eru ágætislaun, 10 millj. kr. á ári í 50 ár, 500 millj. kr., þetta eru ævilaun eins manns sem fjallar um þetta — þá er náttúrlega töluvert mikil freisting að láta þessi skekkjumörk, 500 millj. kr., fara eitthvað annað. Því er svo mikilvægt, frú forseti, að sterkt eftirlit sé viðhaft, vegna þeirra gífurlegu fjármunasveiflna sem þarna eru í gangi. Rannsaka þarf mjög vel eftir á hvað átti sér stað og hvað var að gerast og menn látnir réttlæta það.

Svo er það spurningin um samkeppni milli fyrirtækja. Sum fyrirtæki kvarta undan því að þurfa að keppa við önnur fyrirtæki sem eru undir handleiðslu banka sem hefur ótakmarkað fé, og hyglar þeim jafnvel til að efla sinn hagnað þegar fyrirtækin eru seld. Þetta er líka spurning um jafnræði milli tveggja fyrirtækja. Maður heyrir mikið kvartað undan því að ekki sé jafnræði eða jöfn staða milli fyrirtækja og síðast en ekki síst að ekki sé gætt réttlætis í einhverjum skilningi. Menn gefa einum kjör sem annar fær ekki. Hér er um mjög stórar tölur að ræða, sem við stöndum frammi fyrir og það þarf að afskrifa þetta sem allra fyrst. Ég tek undir það með hv. 1. flutningsmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að þessi staða gæti verið jarðvegur fyrir spillingu. Við skulum vona að það gerist ekki. Þess vegna er svona skýrsla mjög mikilvæg, svo menn viti að þetta verði rannsakað. Þá vita menn að ekki er óhætt að gera eitthvað sem gæti fallið undir skekkjumörk, eins og ég gat um, 500 millj. kr. Þetta eru svo stórar upphæðir.

Ég vil ekki hafa þetta mikið lengra, ég vildi bara að taka undir þetta. Ég vil líka taka undir það að sparisjóðirnir verði kannaðir sérstaklega. Þeir falla undir þetta. Það gerðust eiginlega mjög slæmir hlutir í sparisjóðunum, svo sem í bönkunum líka, það vantar ekki. Margir höfðu kannski meiri trú á sparisjóðunum sem félagslegu fyrirbæri en það kom í ljós að þeir voru eiginlega nákvæmlega eins. Ég hafði reyndar varað við því árið 1994 minnir mig, í grein sem hét „Fé án hirðis“, þar sem ég varaði við fé sem enginn ætti. Það urðu akkúrat örlögin.