144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar hafa lýst óáægju sinni með skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, að þær leggist ekki með þeim. Tekjuskattskerfið er einfaldað og stórir hópar njóta ekki ávinnings breytinganna enda er hvergi gert ráð fyrir því að einfaldara skattkerfi sé réttlátara skattkerfi, heldur þvert á móti.

Stefna hægri stjórnarinnar að einfalda skattkerfið er sett fram í ríkisfjármálaáætluninni sem við ræðum í dag og lögð var fram á Alþingi 1. apríl og hæstv. forsætisráðherra samþykkti væntanlega í ríkisstjórninni. Því vekur það athygli að hæstv. forsætisráðherra sagði í þessum sal þann 15. maí síðastliðinn að skattbreytingar sem skoðaðar væru í tengslum við kjarasamninga sneru ekki að því fletja út skattkerfið heldur væru í raun til þess fallnar að fjölga skattþrepum. Raunin varð önnur enda ríkisstjórnin búin að samþykkja fækkun skattþrepa í ríkisfjármálaáætluninni.

Annað mál sem snýr að þeim sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga er að í ríkisfjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 1% umfram verðbólgu á ári á árunum 2016–2019, en laun ríkisstarfsmanna um 2%, en hækkunin verður ef að líkum lætur meiri. Samkvæmt lögum um almannatryggingar skulu bætur almannatrygginga, meðlög, framfærslulífeyrir samkvæmt barnalögum og elli-, örorku- og slysalífeyrir breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og við ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Ég er ekki viss um, herra forseti, að hv. stjórnarþingmenn geri sér grein fyrir því að með stuðningi við ríkisfjármálaáætlunina séu þeir að samþykkja að brjóta lög um almannatryggingar og auka á misskiptingu og ójöfnuð, en afstaða þeirra til málsins kemur væntanlega fram í umræðunum hér í dag.