149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mál þetta ber augljóslega merki þess að flutningsmenn, sem mig grunar að séu í Þingvallanefnd, í það minnsta einhver, ég man ekki hvernig nefndin er samsett, en það breytir því ekki að augljóst er að flutningsmenn bera hag þjóðgarðsins á Þingvöllum og Þingvalla fyrir brjósti líkt og við gerum vonandi öll. Þetta er ein okkar helsta perla eða sú perla sem við erum hvað stoltust af. Það er fátt skemmtilegra en að fara á Þingvöll og sýna gestum og ferðamönnum sem heimsækja okkur, erlendum gestum, eða jafnvel að fara með Íslendinga, börn sem ekki hafa komið þar áður og fá þau til að anda aðeins að sér sögunni og reyna að upplifa það sem þar fór fram eða hefur farið fram árhundruðum saman.

Þá er líka sú landfræðilega saga sem þarna er gríðarlega merkileg og ófáir erlendir gestir hafa upplifað það sem stórkostlegt ævintýri að geta í rauninni staðið á tveimur flekum sem móta þessa jörð okkar, Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum, og geta staðið á þeim báðum í einu og velt því fyrir sér hvernig jarðskorpan hreyfist, ég ætla ekki að segja dag frá degi, en auðvitað gerir hún það, en í það minnsta ár frá ári og hvernig sú þróun á sér stað.

Þegar við ræðum um samning, breytingar eða frumvarp sem þetta veltir maður að sjálfsögðu fyrir sér hversu langt þarf að ganga til að ná utan um eða hafa einhvers konar reglu eða utanumhald um starfsemi innan náttúruperlna eða þjóðargersema okkar. Það er ekki sjálfsagt í rauninni að hvað sem er eða hvaða starfsemi sem er geti þrifist innan slíkra gersema. Á sama tíma verðum við að passa okkur á því að hafa leikreglurnar þannig að þær séu fyrirsjáanlegar og flestir sitji við sama borð.

Ég velti því fyrir mér í fyrsta lagi hvort menn sjái fyrir sér að einhver takmörkun á tegundum leyfa, ef maður orðar það þannig, geti verið hámark tíu aðilar sem selja pylsur, eða hvernig sem menn horfa á þetta, eða bjóða upp á köfun eða túra með leiðsögn um þjóðgarðinn, eða hvort einhverjar hömlur séu á slíku. Það er ekki að sjá að það sé meiningin í frumvarpinu. En það er líka heldur ekkert sagt hvernig tekið verði á því sæki tíu aðilar um að reka sömu starfsemina og væntanlega er það eitthvað sem mun mótast í þeirri atvinnustefnu sem talað er um að eigi að eiga sér stað. En á sama tíma er ljóst að nefndinni eru gefnar býsna frjálsar hendur með það hvernig sú stefna muni líta út, í það minnsta eins og ég skil málið.

Það er hins vegar eðlilegt, svo ég taki það fram, hæstv. forseti, að það sé einhvers konar reglusetning um starfsemi sem fer fram í þjóðgarðinum, ég ítreka það, þ.e. að því leyti að gætt sé að ákveðnum skilyrðum og gæðakröfum og þess háttar. Að öðru leyti má velta fyrir sér hvers vegna eigi að takmarka starfsemi ef hægt er að hafa hana atvinnuskapandi og ganga vel um perluna að sama skapi.

Þingvellir eru staður sem ég hygg að ýmsir aðilar gætu hugsað sér að veita þjónustu innan og munu þá þurfa að sækja um leyfi þegar það verði fullmótað. Verði þetta frumvarp að lögum fer af stað ákveðin vinna og geta þá aðilar sem hafa hugsanlega áhuga á því fylgst með og komið vonandi hugmyndum á framfæri við þá sem móta munu þá stefnu og setja leikreglurnar.

Eins og kom fram í andsvari mínu við hv. framsögumann nefndarálitsins veltir maður fyrir sér hvers vegna verið er að fara þessa leið með frumvarpið þegar ljóst er að ef frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra verður samþykkt, það gerist líklega ekki á þessu þingi, en verði það samþykkt t.d. á haustþingi, þá er þetta mál óþarft. Gildistökunni er frestað. Til hvers er þá verið að fara í þetta? Ekki nema menn séu á því að þetta sé eitthvert skref í átt til þess að mæta þeim væntingum sem eru í frumvarpi ráðherrans, en um leið gera menn sér kannski ekki væntingar um að það verði klárað í þeirri mynd sem það er. Nú er ég svolítið að geta í eyðurnar.

Það er svolítið sérstakt að fara þessa leið, að ég tel, á sama tíma og frumvarp um Þjóðgarðastofnun er í meðförum þingsins. Persónulega finnst mér það í rauninni alveg fáránleg hugmynd, þessi hugmynd um Þjóðgarðastofnun, að búa til enn eina stofnunina, enn eitt stjórnsýsluapparatið í stjórnkerfi okkar. Ég held að öllum sé ljóst að þó svo að eitthvað byrji með einum eða tveimur starfsmönnum þá kallar það á fleira og það blæs út á endanum og stækkar. Ég held því að það sé ekki rétt að fara þá leið, jafnvel mætti hugsa sér að betur færi á því að innan einhvers ráðuneytisins sé hreinlega eflt það svið sem gæti séð um þjóðgarða eða að annarri stofnun sé falið það vald og það samræmt að núverandi starfsemi með einhverjum hætti. Nú er maður svolítið að velta vöngum yfir einhverju sem er í framtíðinni. En það er líka allt í lagi að gera það.

Hér kom fram að það væri liður í samræmingu að fara þessa leið, samræmingu þá væntanlega milli þjóðgarða og er það í sjálfu sér ágætt að þeir aðilar sem vilja stunda hvers konar atvinnustarfsemi eða veita þjónustu innan þjóðgarðanna viti eða geti séð að ein regla gildir um það sama. Við getum alveg ímyndað okkur að einhver aðili vilji veita sömu þjónustu í tveimur eða fleiri þjóðgörðum, innan tveggja eða fleiri þjóðgarða, hann geti þá samræmt eða reynt að ná fram ákveðinni hagræðingu í þeirri starfsemi þó svo að þjóðgarðarnir séu hvor í sínum landshlutanum.

En þetta ágæta mál er í sjálfu sér ekki að leysa neitt varðandi þessa umsýslu. Ég held að þetta sé góð stefna. Það er gott að ná utan um starfsemina og hafa einhverjar reglur og móta stefnu. Það er nauðsynlegt, ég tek undir það. Það sem mér finnst eiginlega áhugaverðast í þessu öllu saman er stefnumörkunin, að móta stefnu fyrir þjóðgarðinn, hvers konar starfsemi verður í uppbyggingu og slíkt sem við viljum sjá þar. Það er spurning hvort — ég er alls ekki að gera, tek það fram, lítið úr störfum nefndarmanna í Þingvallanefnd, alls ekki. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að vera með svona valdamiklar stofnanir, nefndir eða stjórnir yfir þjóðgörðunum, hvort betra sé að hafa meiri miðstýringu eða að færri komi að þessu. Ég er ekki að segja að það sé endilega rétt. Ég er bara að velta þessu upp. Við eigum að einbeita okkur að því að reyna að einfalda kerfið á Íslandi, fækka einingum, ekki fjölga þeim. Jú, samræma eins og hér er sagt, gera þetta allt augljósara. Það er ekki endilega rétt, held ég, að gera það með þessum hætti, þ.e. að setja reglur varðandi nákvæmlega þetta, en þó kann það að vera nauðsynlegt meðan ekkert annað er til eða í hendi.

Það er mikilvægt, eins og kom fram í máli mínu í andsvari, að þegar farið verður að úthluta leyfum sé ljóst hvaða reglur gilda, ljóst hvort einhver takmörkun sé á þeirri starfsemi sem þar á að vera, því að um leið og við erum búin að takmarka hlutina, þegar við erum búin að segja að svona starfsemi verður en ekki önnur, svona mörg leyfi verða en ekki þetta mörg, þá værum við búin að búa til ákveðin takmörkuð verðmæti. Mikilvægt er að hafa í huga að öll lög og allar reglugerðir um slíkt þurfa að vera skýrar. Við höfum séð það annars staðar í stjórnkerfi okkar þar sem við erum með takmarkaða auðlind sem dæmi eða takmörkun á einhvers konar leyfum, að það sætir eðlilega sífelldri gagnrýni, sem er bara eðlilegt. Því má velta fyrir sér hvort einhver hætta sé á að menn fari þá leið sem hér er farin, að þetta muni leiða af sér eitthvað slíkt, það starf sem hér um ræðir.

Frumvarpið snýr fyrst og fremst að atvinnutengdri starfsemi innan þjóðgarðsins, þ.e. að slíkt geti ekki átt sér stað nema með samningum við Þingvallanefnd. Ég hef ekki þekkingu á því, verð að viðurkenna það, hvaða fyrirkomulag gildir um það í dag, en það kemur kannski fram í umræðunum hvaða reglur gilda í dag um það hverjir geta stundað atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins og þá hvort það sé án alls, hvort því fylgi einhver kostnaður en engin leyfi eða hver breytingin er í raun og veru.

Ég vona líka að Þingvallanefnd, fari hún í gerð atvinnustefnunnar — svolítið skrýtið að kalla það atvinnustefnu, ætti frekar að vera þjónustustefna eða eitthvað slíkt — þ.e. hvaða starfsemi á að vera þar innan þjóðgarðsins, geri það sem mest opinberlega, hafi það uppi á borðum, þ.e. taki við hugmyndum frá aðilum, við skulum segja að hún taki við hugmyndum frá hagsmunaaðilum, aðilum sem vilja veita þjónustu og hafa þekkingu á slíku, eða ef einhvers konar nýsköpunarhugmyndir væru uppi um það hvers konar þjónusta geti passað, átt við og fari fram innan þjóðgarðsins.

Ég held líka að það sé gríðarlega mikilvægt og eitt af því, hvað sem verður um atvinnustefnuna og frumvarpið sem slíkt, að það sé mótað vandlega hvaða kröfur á að gera til fyrirtækja eða starfsemi innan þjóðgarðanna á Íslandi, að sjálfsögðu umhverfiskröfur varðandi hollustu, mengun og slíkt, að gætt sé að öllu slíku, einhvers konar vottun þess vegna og fyrirtækin uppfylli skýrar kröfur. Það skiptir miklu máli því að ef við ætlum að byggja upp þjóðgarðana sem perlur verðum við að vera fremst í flokki hvar sem er þegar kemur að öllu slíku. Það er ekki síður mikilvægt en að móta stefnu um það sem á að vera innan þjóðgarðsins.

Einnig má aðeins velta fyrir sér hvort nefndin fái fullmikið vald. Sveitarfélög tengjast þessu náttúrlega með beinum eða óbeinum hætti. Nú hef ég ekki náð að kynna mér hvort umsögn hafi komið frá þeim aðilum. En í nefndarálitinu kemur fram að þetta sé hugsað til einföldunar að horft sé til laga um þjóðlendur, þ.e. að ekki þurfi að sækja til sveitarfélaganna þegar verið er að tala um að nýta land og réttindi innan þjóðgarðsins, heldur verði það alfarið undir stjórn Þingvallanefndar. Fróðlegt væri að vita hver viðbrögð sveitarstjórnarmanna hafa verið við þessu. Það kann að vera að þetta sé allt gert í góðri sátt og ber því þá að sjálfsögðu að fagna. Það er til bóta, myndi ég segja, í málinu ef svo er. Það er að mörgu að hyggja þegar nefnd, ráð eða einhverjir aðilar fá þau völd sem hér er lagt til.

Verði málið að lögum tekur við vinna við að móta atvinnustefnu. Við tekur að nefndin þarf sjálfsagt að setja sér einhvers konar vinnureglur varðandi mótun atvinnustefnu og það sem fram undan er. Fara þarf í gegnum það hvernig gjaldtakan á að vera, fyrir hvað er greitt, hvað er innifalið í gjaldtökunni. Hversu hátt á gjaldið að vera? Hver er umsýslan í raun og veru sem það gjald á að standa undir? Þetta má ekki vera einhvers konar fjáröflunarleið. Það þarf að vera skýrt. Ef það kemur ekki skýrt fram hér þarf það að sjálfsögðu að skýrast þegar reglugerð nefndarinnar verður að veruleika, verði hún að veruleika.

En að því sögðu er líka forvitnilegt, hæstv. forseti, að komast að því hvaða reglur gilda í dag um það sem hér er verið að breyta, þ.e. um atvinnustarfsemina, um umsýsluna, hvert menn sækja leyfi sem vilja stofna fyrirtæki, vilja bjóða upp á þjónustu. Væntanlega hefur þjóðgarðsvörður eitthvað um það að segja og möguleg alfarið. Það er tiltölulega einföld stjórnsýsla ef það er, menn geta haft skoðun á því hvort hún sé rétt. Ég er ekki að segja að það sé eitthvað rangt við það, alls ekki. Ég hefði haldið að mjög freistandi væri að hafa þetta mjög einfalt, ef hægt væri, en þá að nefndin hafi, eins og hún hefur, yfirumsjón með þjóðgarðinum.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé margt áhugavert í þessu máli og geti verið til bóta. Maður furðar sig svolítið á tímasetningunni vegna frumvarps ráðherra, sem er líklega í umhverfis- og samgöngunefnd, og líka því að gildistakan sé færð aftur og sé í rauninni ekki fyrr en í júní 2020. Það væri fróðlegt að vita skýringuna á því.

Ég geri mér grein fyrir að einhvern tíma tekur að móta reglugerðina varðandi leyfisgjöldin og móta atvinnustefna. En ég hefði haldið að þetta væri vel rúmur tími, eitt ár, í ljósi þess að við erum með stórt mál í þinginu sem snertir innflutning á ófrosnu kjöti þar sem boðaðar eru fjölmargar svokallaðar mótvægisaðgerðir, 15 eða 17 aðgerðir, og það eru þrír, fjórir mánuðir í að lögin eiga að taka gildi. Það yrði í rauninni stórkostlegt afrek nái eitthvað af þeim fram að ganga áður en gildistakan mun eiga sér stað í því máli.

Virðulegur forseti. Þjóðgarðarnir eru okkur gríðarlega mikilvægir. Þetta eru perlur. Þetta eru gersemar sem við þurfum að huga vel að og ganga vel um. Við þurfum að passa að farið sé eftir ýtrustu kröfum og reglum, að sjálfsögðu. Á sama tíma megum við ekki vera með reglur sem eru letjandi fyrir fólk, hvort sem það er að veita þjónustu eða hreinlega að sækja heim þessar perlur okkar, því að það er aldrei ásættanlegt að náttúran sé einhver leikvöllur eða svæði fyrir fáa. Þetta þarf að vera þannig að Íslendingar allir, eða sem flestir og helst gestir okkar, geti með góðu móti sótt þá heim, fengið þar góða þjónustu á sanngjörnu verði þannig að þeir vilji koma aftur og aftur til að njóta þessara frábæru staða.