150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Þær hafa verið á svipuðum nótum, ræður hv. þingmanna Miðflokksins. Það er sem ég sjái þá saman sitjandi í hring, gjörvallan þingflokkinn, uppi í fílabeinsturni þar sem þeir róa fram í gráðið og segja: Þetta er allt of dýrt. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera. Hvað kostar þetta eiginlega? Þeir sjá ekkert út því að það er móða á glerinu. Mér finnst eins og Miðflokkurinn sé að ala á því statt og stöðugt að undirbúningur þessa verkefnis, sem hefur átt sinn mikla aðdraganda, sé nánast hroðvirknislega unninn. Það er búið að greina og sundurgreina smæstu atriði í þessu stóra verkefni. Ég geri ekki lítið úr því að það er stórt og mikið og það er kostnaðarsamt, það kostar, en við erum að fjárfesta fyrir framtíðina. Það verður gríðarlegur ábati til langrar framtíðar.

Ég veit að hv. þingmaður gerir sér það ljóst að við erum ekki endilega að gera þetta í okkar þágu. Við erum að gera þetta í þágu framtíðar borgaranna og við erum að gera þetta í þágu umhverfisins. Við getum ekki haldið svona óbreytt áfram. Það er alveg ljóst. Ef við ætlum að dekra við einkabílinn eins og við höfum gert þá kostar það stórfelldar fjárupphæðir og við getum ekki einu sinni annað umferðinni með því.

Látið er að því liggja að vélað hafi verið um þetta, eins og ég segi, í einhverri hroðvirkni. En telur hv. þingmaður að þau sveitarfélög sem hafa tekið höndum saman eftir langa mæðu vaði í villu og svíma og viti ekkert hvað þau eru að gera? Það hefur verið gerð ítarleg kostnaðaráætlun um þessa þætti. En það er aldrei of varlega farið og ég tek undir með þingmanninum um það.