139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fórum í síðustu viku og þessari og héldum fimm af tíu fyrirhuguðum opnum fundum í kjördæminu. Til umræðu á fundunum hafa verið ýmis brýn mál, atvinnu- og menntamál, sjávarútvegsmál, samgöngumál, Evrópumál o.fl. Áherslur á málaflokka eru eðlilega mismiklar eftir því hvar fundirnir voru staðsettir í kjördæminu og þá skiptir máli hvað brennur á fundarmönnum.

Eitt mál öðrum fremur hefur þó komið mjög sterkt fram á öllum fundunum og það er virðing Alþingis og hegðun og talsmáti þingmanna úr ræðustól Alþingis. Menn eru sammála um og þykir mjög miður að virðing fyrir þessari elstu og æðstu stofnun landsins hafi hrakað síðustu tvö árin. Sumir segja að nýju þingmennirnir séu helstu sökudólgarnir hvað þetta varðar en aðrir benda á að í hópnum séu bæði nýir þingmenn og þingmenn með þingreynslu. Hverjum sem er um að kenna er þó ljóst að Alþingi hefur glatað trausti og virðingu þorra landsmanna.

Virðingu og traust er mögulegt að vinna til baka en það krefst þess að við tökum höndum saman. Vandinn, virðulegi forseti, virðist vera sá að nokkrir hv. þingmenn sjá sér hag í að halda málum í átakaferli og ganga of langt í þeirri hagsmunagæslu, svo langt að framkoman skaðar þingið.

Í samfélagi okkar hefur ríkt tortryggni og fjandskapur fengið góða næringu allt frá efnahagshruni, mörgum málum haldið í átakaferli og spilað á neikvæðar tilfinningar sem hefur valdið þjóðarsálinni vanlíðan, auk þess sem virðing Alþingis hefur dalað jafnt og þétt.

Með því að kveðja mér hljóðs undir þessum lið vil ég hvetja hv. þingmenn til að taka höndum saman og sýna yfirvegun og virðingu fyrir skoðunum annarra þegar tekist er á um málefni og vinna um leið smátt og smátt til baka virðingu Alþingis Íslendinga.