150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki hægt að ræða þessar tvær samgönguáætlanir án þess að minnast aðeins á hafnir. Mig langar til að ræða hér Reykjavíkurhöfn sem auk þess að vera stærsta fiskihöfn á Íslandi er viðkomustaður bæði farmflutninga og farþegaflutningaskipa og hefur verið byggð upp undanfarna áratugi, að mestu inn við Sund en síðan tilheyrir Grundartangahöfn Reykjavíkurhöfn. Ég tel að verulega sé verið að þrengja að Sundahöfn og ég tala nú ekki um Reykjavíkurhöfn, sérstaklega ef þessar borgarlínuhugmyndir verða að veruleika.

Það er reyndar eitt, herra forseti, sem mig langar aðeins að stinga inn vegna þess að nú er verið að þrengja verulega að Geirsgötu fram hjá Hafnartorgi, en það er einmitt sú leið sem þó nokkuð margir olíuflutningabílar aka um á hverjum einasta degi. Það hlýtur að vera ábyrgðarhluti að stífla miðbæinn í Reykjavík, eins og nú er verið að gera, miðað við þessa þungaflutninga. Við hljótum að spyrja okkur hversu lengi íbúar Reykjavíkur geti í sjálfu sér unað við að olíubirgðastöð sé úti í Örfirisey og að aka þurfi frá henni olíu á hverjum einasta degi og dreifa á allar bensínstöðvar í nágrenninu. Við hljótum að spyrja okkur að því hvort ekki sé komið að því að það þurfi að stokka þessi mál upp og þá kemur Grundartangahöfn í hugann, sem er ekki góður kostur. Ef við tækjum Grundartangahöfn undir olíuhöfn þyrfti olían að fara í gegnum Hvalfjarðargöng, ellegar að keyra fyrir Hvalfjörð á hverjum degi, sem er ekki góður kostur. Þá kemur upp í hugann höfnin í Helguvík sem er úrvalshöfn fyrir einmitt olíumóttöku. En svo vill til að ríkisstjórn Íslands var nú nýlega að afþakka töluvert fé til að bæta þá höfn. Það var furðuleg ráðstöfun, ekki síst vegna þess hvernig ástandið er í atvinnumálum á Suðurnesjum akkúrat núna.

En það er ekki aðalmálið. Ef við horfum bara til þessa eina máls sem ég drap á hér, þ.e. olíuflutninga á þessu svæði — og þá á ég náttúrlega líka við Akranes, Hvalfjörð, Selfoss og Keflavík — er það með öllu óhugsandi til framtíðar og reyndar óhugsandi í dag að þungaflutningar með olíu fari í gegnum viðkvæmasta hluta Reykjavíkur. Nú hlýtur maður að hugsa til þess, vegna þess að auðvitað viljum við flest byggja upp atvinnulíf í Reykjavík, þótt borgarstjórnarmeirihlutinn sé á móti því, að nú á að fara að taka í notkun, væntanlega á næsta ári, fyrsta fimm stjörnu hótelið í Reykjavík. Það fara reyndar sögur af því að það sé þegar komið, en við skulum ekki gera úlfalda úr mýflugu. En svo vill til að þetta hótel stendur við götuna sem allir þessir olíuflutningar fara um á hverju hverjum einasta degi.

Í umsögn frá Hafnasambandi Íslands kemur fram að stjórn þess telur að rými sé fyrir talsvert meiri umfjöllun um hafnir í þeim tveimur samgönguáætlunum sem lagðar eru fram. Töluvert meira rými fyrir umfjöllun um hafnir — ergo: Þeir finna að því að það sé ekki nóg fjallað um hafnir í þessum tveimur samgönguáætlun. Það ætti kannski að lagfæra það áður en þær verða samþykktar.

En ég get ekki klárað þetta nú og ætla því að biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.