150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:50]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það féll hér orð áðan sem var kallað kall tímans. Það er nefnilega lykilorð í þessum umræðum í nokkuð margföldum skilningi. Í fyrsta lagi er það kall tímans að afgreiða samgönguáætlun fyrir þinghlé. Ef Miðflokkurinn ætlar ekki að hjálpa okkur við það skilur hann ekki kall tímans. Það er líka kall tímans vegna atvinnuskapandi áhrifa samgönguáætlunar. Undirbúningur að ótal verkefnum tefst ef þetta gerist ekki. Svo er þetta kall tímans að því leytinu til að þinghlé er skammt undan og með þessu áframhaldi veit ég ekki hvað gerist.

Síðan féllu þau orð líka að það væri svo sem allt í lagi þó að þetta gengi ekki eftir vegna þess að fyrri samgönguáætlun væri þó í gildi. Það er mikill misskilningur vegna þess að ef endurskoðunin, sem við erum að fjalla um núna, er ekki samþykkt verður ekki af framkvæmdunum sem þar eru til aukningar og flýtingar. Það er skelfilegur misskilningur ef menn halda að við ætlum að sætta okkur við þá samgönguáætlun sem við gengum frá í febrúar 2009.

Hér handan götunnar er kynning á borgarlínunni, tiltölulega vönduð og skýr. Mér er til efs að þingmenn Miðflokksins hafi farið þangað og kynnt sér í hverju borgarlínan felst því að þeir eru sífellt að núa mönnum um nasir að þeir viti ekki í hverju hún felist. Og varðandi fjármögnun og samvinnuverkefni vill svo til að ég er framsögumaður þess nefndarálits (Forseti hringir.) og ég ætla að ræða það undir þriðja lið í dag, á morgun eða síðar í sumar.