150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni hvatti ég hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sömuleiðis þingmenn þeirra flokka sem skipa meiri hlutann í borgarstjórn Reykjavíkur til að koma hér til samtals. Ég hef til að mynda sérstakan áhuga á að ræða við Sjálfstæðismenn — sem hafa lýst því að þeir hafi tekið sér þá stöðu í hinu pólitíska litrófi að þeim sé annt um hag ríkissjóðs og vilji fara vel með opinbert fé — um þær fyrirætlanir sem eru uppi, sér í lagi varðandi borgarlínu. Ég tel að Sjálfstæðismenn átti sig mjög vel á því, þegar um er að ræða framkvæmdir, að ég ekki tali um framkvæmdir sem hlaupa á tugum milljarða eins og gert er ráð fyrir að verja eigi til borgarlínu — og það jafnvel þótt því hafi verið haldið fram af ábyrgum aðilum og marktækum að hægt sé að ná sömu markmiðum fyrir miklu minna fé, nokkra milljarða í staðinn fyrir kannski 50 milljarða hið minnsta — að slíkar framkvæmdir kalla á raunhæfar áætlanir. Fyrir það fyrsta þarf að vera raunhæf framkvæmdaáætlun og á henni þarf að reisa raunhæfa kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun, herra forseti, verða að fylgja möguleg vikmörk frá kostnaði og greining á því hvaða þættir gætu leitt til kostnaðar umfram það sem áætlað er. Það skilja Sjálfstæðismenn auðvitað. Þeir gera sér grein fyrir því að áður en farið er í framkvæmdir þarf arðsemismat slíkra framkvæmda að liggja fyrir og sömuleiðis þurfa að liggja fyrir áætlanir um hvaða not eru af umræddri framkvæmd. Nokkrir hv. þingmenn hafa hér á undan mér fjallað um þessi frægu 4% sem nota strætó. Þrátt fyrir átak hefur það hlutfall að mestu leyti haldist fast. Hv. þm. Birgir Þórarinsson, sem var hér í ræðustól næstur á undan mér, lýsti því, eins og svo margir aðrir hafa gert, að hugmyndir um að koma því hlutfalli í 8–12% væru með öllu óraunhæfar.

Herra forseti. Það er varla einleikið að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins annars vegar og hv. þingmenn sem hvað helst hafa beitt sér fyrir borgarlínu hins vegar — við vitum reyndar að sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins í nálægum sveitarfélögum beita sér í þá veru, a.m.k. flestir þeirra — skuli ekki fást til að koma hér til samtals. Ég skil kannski að hv. þingmenn flokkanna sem skipa meiri hlutann í Reykjavíkurborg hafi ekki sérstakan áhuga á að ræða hluti eins og kostnað og arðsemi og slíkt. En það eru hlutir sem liggja Sjálfstæðisflokknum nærri. Ég tel reyndar að Viðreisn eigi að hafa glögga sýn á þessa hluti. Ekki skortir þann flokk nálægð við til að mynda samtök í atvinnulífinu. Það ber hins vegar svo undarlega við að sá flokkur birtist bara eins og ótíndur vinstri flokkur í borgarstjórninni og sýnist ekki hafa neitt hryggjarstykki til að vinna á móti þeim ósköpum sem þar sýnast ganga á.

Herra forseti. Ég er langt frá því að vera búinn með það sem ég ætlaði að fara yfir hér og bið um að verða settur á mælendaskrá öðru sinni.