150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

”””fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það stendur mér nærri sem þingmanni Reykvíkinga að fjalla um samgöngumálin hér í borginni. Þegar við erum að ræða samgönguáætlun verður að segjast eins og er að þar er mjög lítið fjallað um framkvæmdir í Reykjavík. Það stendur þannig á að hér hefur um árabil verið það sem kallað hefur verið framkvæmdastopp með þeim afleiðingum að myndast hafa slík þrengsli í umferðinni að fólk situr kannski tímunum saman í biðröðum.

Ég vil, herra forseti, taka undir með hv. þm. Sigríði Á. Andersen sem rakti þetta vel í ræðu sinni í þessari umræðu. Þegar hún ræddi um Reykjavík, sem hún einbeitti sér aðallega að í ræðunni, sagði hún, með leyfi forseta:

„Þar ríkir ófremdarástand í samgöngumálum, algert ófremdarástand.“

Og það er auðvitað sjálfgert að taka undir með hv. þingmanni í þessu efni og sömuleiðis þegar hún fjallar um afleiðingar af þessu framkvæmdastoppi í samgöngumálum í Reykjavík. Hún nefnir til að mynda atgervisflótta, bæði opinberra stofnana og fyrirtækja úr Reykjavík. Þessi málflutningur hennar er auðvitað mjög í þeim anda sem við höfum verið að fjalla um. Hún fjallar reyndar um borgarlínu með mjög áþekkum hætti og við Miðflokksmenn höfum gert, nefnir hana aldrei öðruvísi, sýnist mér, heldur en svokallaða borgarlínu og hún segir um hana að hún sé „algjörlega óútfært fyrirbæri“. Hún segir sömuleiðis í ræðu sinni að „eins og hún er núna virðist ekkert vera hönd á festandi hvernig hún er“.

Enn vitna ég í hv. þm. Sigríði Á. Andersen, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir 50 milljörðum í þessa svokölluðu borgarlínu en látið hjá líða að huga að einföldum vegaframkvæmdum í Reykjavík sem eru hagkvæmar, skila árangri mjög fljótt og eru líka ódýrar.“

Þetta er auðvitað það sem við erum að segja, í síðustu ræðu minni lagði ég í þessu sambandi höfuðáherslu á að hægt væri að fara greiða leið milli austur- og vesturhluta borgarinnar og þar er auðvitað Miklabrautin sem blasir við.

Ég ætla leyfa mér að vitna í grein í Morgunblaðinu frá síðasta mánuði, 19. maí 2020, þar sem Jónas Elíasson segir um Miklubrautina, með leyfi forseta:

„… umferðartafir eru þar svo miklar í dag að hægt er að reikna út að samanlagðar tafir nema um 100 ársverkum á dag og óþarfa bensíneyðsla er um 10 tonn daglega, sem er frekar slæmt fyrir loftslagið sem allir vilja laga.“

Jónas segir enn fremur í grein sinni, með leyfi forseta:

„Til að bæta úr þessu þarf ein stutt jarðgöng í gegnum Háaleitið, tvær brýr í framhaldinu, aðra yfir Grensásveg og hina yfir Kringlumýrarbraut, og þá er hægt að rífa burt umferðarljósin og auka umferðarrýmd um 50%. Til þess þarf viðbótarráðstafanir, við Lönguhlíð og Njarðargötu, en þær eru minna mál.“

Og höfundur segir að:

„… sú tillaga um Miklubrautina sem hér er lögð fram hefur hvergi sést áður þótt hún liggi algerlega beint við sem lausn á núverandi vandamálum.“

Jónas Elíasson gerir sömuleiðis að umræðu þá hugmynd að setja Miklubraut í stokk sem hefur þá merkingu að hana eigi að grafa í jörð, eftir moldvörpuformúlunni væntanlega, en hann álítur að þessi áform séu bersýnilega gerð í þeim tilgangi að geta úthlutað lóðum ofan á stokknum. Þá er orðið stutt í lóðabrask. Hann bendir á fordæmi erlendis frá sem ég mun fara yfir hér. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það núna en fer yfir það í næstu ræðu sem kallar á að ég bið hæstv. forseta um að skrá mig að nýju á mælendaskrá.