150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef í fyrri ræðum mínum farið yfir umsögn sem dr. Trausti Valsson, skipulagsfræðingur við Háskóla Íslands, hefur sett fram vegna borgarlínu. Það er margt mjög athyglisvert sem þar kemur fram og nauðsynlegt að þingmenn kynni sér það sem einn okkar helsti sérfræðingur í skipulagsmálum hefur fram að færa varðandi borgarlínuna. Næst vil ég víkja að umsögn sem dr. Haraldur Sigþórsson umferðarverkfræðingur hefur sett fram vegna borgarlínu. Þar kemur margt athyglisvert fram. Hér er sérfræðingar á sviði umferðarmála, umferðarverkfræðingur, að tjá sig.

Það er nauðsynlegt í þessari umræðu, herra forseti, að við hlustum á það sem þeir sem best þekkja til í málaflokknum hafa fram að færa. Málið er ekki alveg eins og meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur setur það fram, með öllum þeim kostum sem hann telur upp. Það er bara ekki þannig. Ókostirnir við verkefnið eru margir. Við verðum líka að hlusta á sérfræðinga, ekki bara á þá sem eru hlynntir þessu. Við þurfum líka að hlusta á þá sem hafa gagnrýnt verkefnið. Menn verða að hafa akademíska og gagnrýna hugsun, eins og við segjum, í máli sem er mjög stórt og ekki síst mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. Dr. Haraldur segir, með leyfi forseta:

„Ýmiss konar órökstudd óskhyggja kemur fram í tillögunni. Til dæmis er skv. svæðisskipulagi gert ráð fyrir fjórföldun á farþegafjölda strætós til 2040. Flestir, sem fengist hafa við þennan málaflokk, sjá, að þetta markmið mun aldrei nást. Í fyrsta lagi hefur á undanförnum árum einungis tekist að fjölga farþegum um nokkur prósent með þó nokkrum tilkostnaði.“ — Við höfum aðeins rakið það í þessari umræðu. — „Í öðru lagi var mikil kreppa í þjóðfélaginu eftir hrunið 2008 og þá minnkar bílaumferð, en með batnandi efnahag eykst fjöldi bíla aftur og umferð bíla eykst. Þetta kallar á fleiri sviðsmyndir framtíðarinnar.“ Þetta er réttilega sett fram og auðvitað eigum við að læra af reynslunni í þessum efnum.

Síðan ræðir dr. Haraldur um umhverfið sem borgarlína skapar í tillögunni. Hann segir það „mjög óvistlegt og jafnvel hættulegt.“ Hann vitnar í tillöguna: „Þarna er sýnd þröng götumynd án öryggissvæða og t.d. verður að hafa í huga, að farþegar í sporvögnunum, sem þar eru sýndir í miðjunni“ — sem eru náttúrlega bara strætisvagnar — „verða að komast í og úr vögnunum, sem kallar á rými. Þeir verða líka í öllum tilfellum að komast yfir götuna, sem væri annars ekki þörf á, ef biðstöðvar væru í köntum götunnar, en þetta fyrirkomulag kallar á skýrar gangbrautir eða gangbrautarljós.“ Hér erum við sem sagt að tala um svæði sem er næst borgarlínunni.

Hann ræðir um bílastæði og græn svæði, að þau séu reyndar horfin vegna mikils byggingamassa sem á að vera meðfram línunni til að stutt sé fyrir þá sem þar búa að taka borgarlínuna. „Bílastæðin eru mikilvæg fyrir íbúa og ekki síður verslun og þjónustu. Ef bílastæðin eiga að hverfa ofan í kjallara er það óheyrilega dýrt og alger óþarfi á þessu svæði.“

Síðan ræðir hann um byggingarnar sem á að byggja á 400 metra belti við línuna og hann segir, með leyfi forseta:

„Byggingar eru alveg ofan í götunni. Hafa menn t.d. reiknað hljóðvist og loftmengun við byggingarnar? Líklegt er, að sú hlið, sem snýr að götunni, verði að vera grár veggur. Þéttbýlisumhverfi miðborga er í tillögunni dreift um úthverfi eftir borgarlínunni. Þetta er alger óþarfi að gera, enda er Reykjavík lítil borg með dreifðri byggð og verður seint stórborg. Ókleift mun reynast að fá samþykki íbúa og eigenda fyrir jafn viðamiklum breytingum og skerðingu á verðmæti eigna.“ Það hafa einmitt komið fram athugasemdir um að verið sé að skerða eigur borgarbúa þar sem línan á að liggja og því hafa íbúar mótmælt, ekki síst þegar kemur að færri bílastæðum og skertu útsýni.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er liðinn og ætla að halda áfram í næstu ræðu að tala um þessar athugasemdir sem dr. Haraldur Sigþórsson umferðarverkfræðingur hefur gert við borgarlínuna. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.