140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt, ég er áhugamanneskja um íþróttir og hef verið frá unga aldri. Fjölskylda mín hefur lifað og hrærst í þeim heimi. Ég á börn sem hafa stundað íþróttir frá því að þau voru kornung. Ég ól upp börn sem hafa gengið upp alla flokka og upp í landslið í handbolta og fótbolta. Ég þekki það sem hv. þingmaður talar um þegar kemur að landsliðshópnum, að eftir fyrsta landsleik, ekki eftir fyrsta mark, hafa allir í A-landsliði Íslendinga orðið fyrir því að á þá hefur verið skellt með handklæði, rassskelling. Ég hef hins vegar ekki og aldrei, frú forseti, heyrt að þetta viðgangist niður í yngstu flokka, að þetta sé gert þar í hvert sinn sem einstaklingur, ungur, stelpa eða strákur, skori sitt fyrsta mark og þetta sé viðtekin venja, og ég harma ef svo er.

Það sem einu sinni tíðkaðist og þótti í lagi innan A-hóps landsliðsins gengur ekki niður í yngri flokkana og gengur heldur ekki í dag. Viðhorfin eru önnur en þau voru fyrir 30 árum. Ég tek undir með hv. þingmanni og Ómari Ragnarssyni að þetta skulum við skoða vegna þess að ef við ætlum að hvetja unga krakka til að stunda íþróttir af öllum tegundum þá styðjum við þau alla leið, við brjótum þau ekki niður á einhverjum tíma. Það sem Ómar Ragnarsson hefur látið eftir sér hafa verð ég að viðurkenna að kemur mér verulega á óvart vegna þess að einu sinni var þetta leikur og það er ljóst að hann hefur snúist upp í andhverfu sína reynist það satt sem fram hefur komið.