150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

ríkisstjórnarsamstarfið.

[11:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur kvartað undan því að fá ekki þau svör sem hann vill en hann getur ekki komið hingað upp með rangfærslur og ætlast til að þeim sé ekki svarað. Það að halda því ranglega fram að núverandi fyrirkomulag launa æðstu embættismanna ríkisins sé eins og fyrra fyrirkomulag er bara rangt hjá hv. þingmanni. Þetta fyrirkomulag byggist á mikilli vinnu með aðilum vinnumarkaðarins til að skapa aukna sátt. Það byggir á fyrirmyndum frá Norðurlöndunum og er gerólíkt í grundvallaratriðum. Hv. þingmaður getur ekki komið upp og hent einhverjum fullyrðingum fram og kvartað yfir svörunum.

Það að fara í ríkisstjórn, með hverjum sem maður gerir það, snýst um að ná árangri í þeim málum sem maður vill ná árangri í. Ég legg mjög mikið upp úr því að vera í stjórnmálum til að ná árangri í mikilvægum málum fyrir samfélagið. Ég mæli minn árangur út frá því hvaða árangri við erum að ná fyrir samfélagið.