139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur af hálfu þingmannsins og mikilvægt að taka þær allar til umhugsunar og skoðunar. Varðandi vitnaverndina sem hann vék að í lok máls síns vek ég athygli á því að vitnavernd í mansalsmáli var í fyrsta skipti beitt hér á landi í tengslum við það mál sem ég vísaði til í framsöguræðu minni.

Það er sitthvað sem hangir á spýtunni. Með því að þyngja refsirammann, þ.e. fjölga árunum sem hægt er að dæma brotamann í, verða auk þess rýmri heimildir til að úrskurða menn í gæsluvarðhald meðan á rannsókn stendur. Það er annað samhengi þessara mála, sem ber að hafa í huga.