139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður ætti ekki að reyna að drepa málum hér á dreif. En jú, það er eðlilegt að hann leggi að jöfnu þau mótmæli sem hann hefur flutt þingsályktunartillögu um að verði rannsökuð og þau mótmæli sem hér urðu 1. október sl. fyrst hann nefnir þau sérstaklega, og hv. þingmaður hlýtur þá að koma með tillögu um að sín eigin viðbrögð og annarra þingmanna sem nú sitja verði rannsökuð á sama hátt og hann talar hér um.

Þær kröfur sem uppi voru í mótmælunum í búsáhaldabyltingunni voru skýrar. Þær voru um það að seðlabankastjórnendur yrðu látnir fara, að stjórnendur Fjármálaeftirlitsins yrðu látnir fara, að ríkisstjórnin færi og hér yrði boðað til kosninga og að stjórnarskránni yrði breytt, að hér yrði sett á stjórnlagaþing. Þetta voru þær meginkröfur sem ómuðu þennan vetur og það verður að segjast eins og er að mótmælendur höfðu fullan sigur í þessum efnum. En það er kannski núna fyrst að stjórnlagaráðið er sest á rökstóla. Endurskoðun stjórnarskrárinnar var nú helsta mál þingflokks og flokks hv. þingmanns að koma á stjórnlagaþingi til þess að endurskoða stjórnarskrána en af einhverjum ástæðum treysti formaður þingflokks Framsóknarflokksins sér ekki til að fylgja því eftir. Það er kannski það sem er eftir af kröfum búsáhaldabyltingarinnar og ég ætla rétt að vona að við komum henni í gegn.

Undantekningar sem ég nefndi og fóru úr böndum, þar sem ofbeldi var viðhaft, voru einstök atvik en ég vil fyrst og fremst nefna nóttina við Stjórnarráðið.