139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef engar athugasemdir við það að þingflokksformaður Framsóknarflokksins hafi ákveðið að þetta mál kæmi á dagskrá þingsins áður en því lýkur. Við skulum átta okkur á hvenær þetta mál var lagt fram á þinginu. Það er nú þannig að þingmannamál mæta oft afgangi og það þekkjum við öll og ekki síst í stjórnarandstöðunni hversu lengi mál okkar mega bíða og hversu lengi svör ráðherra gagnvart okkur mega bíða umfram það sem heimilt er samkvæmt þingskapalögum. Þetta mál var lagt fram á þingi í nóvember 2010. Síðan eru liðnir sex mánuðir. (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.) Ég heyrði ekki síðustu spurningu hv. þingmanns. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það við hvaða þingmenn er sérstaklega átt í þessari þingsályktunartillögu. Það mun rannsóknin leiða í ljós (Forseti hringir.) og ég skil ekki þessa viðkvæmni. Ég hef bara sagt frá hver voru ummælin sem ég varð vitni að hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (KLM): Forseti biður um ró í þingsalnum.)