140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er þekkt í sögu okkar og þess vegna undanfarinna ára að sett eru markmið sem okkur, ríki, sveitarfélögum eða landsmönnum, reynist ekki fært að standa við að fullu við setningu laganna en menn finna sér þó leiðir, gera áætlanir til að standa við. Þetta er alþekkt í heilbrigðismálum, samgöngumálum o.s.frv. en það þýðir ekki það að markmiðin séu ekki sett og þau eru jafnvel lögfest eins og við þekkjum.

Mikilvægt er að þeirri lögfestingu fylgi leiðbeining um það hvernig hægt er að ná þeim markmiðum vegna þess að annars eru þau einskis virði. Ég tel mjög mikilvægt að setja sér slík markmið og það erum við að reyna að gera með þessari breytingartillögu. En ráðuneytið eða ráðherrann og starfsmenn hans í ráðuneytinu hafa séð þann eina kost á sínum tíma að bakka, að stíga skref til baka, að tala ekki lengur um skráningu fornleifa heldur tala um „upplýsingar sem gefa greinargóða mynd af menningarminjum innan sveitarfélags.“ Þetta merkir því miður ekki neitt. Það er ekkert innihald í þessum orðum. Það veit enginn hvað þetta er, hvorki sveitarfélögin, fornleifafræðingarnir, við þingmenn, ráðherrann né þau í ráðuneytinu. Ég tel að með þeim lágmarkskröfum sem þarna eru á settar um skráningu fyrir hvort skipulag um sig og með því samkomulagi sem þarna er heimilað og þá mælt fyrir um með kurteislegum hætti við landmikil og fámenn sveitarfélög, þá skapist aðstæður til þess einmitt að finna út hversu mikið fjármagn þarf, hvað er hægt að ætlast til að sveitarfélög leggi mikið fram af því og reyna að finna leiðir til að styrkja fámenn sveitarfélög, landmikil og auðug að fornleifum og menningarminjum til að skrá þau og gera sér síðan — ég segi það kannski svolítið hryssingslega — mat úr þeim (Forseti hringir.) í atvinnulífi sínu rétt eins og það sveitarfélag gerir sem við (Forseti hringir.) erum að ræða um við hv. þingmann.