153. löggjafarþing — 123. fundur,  9. júní 2023.

þingfrestun.

[19:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna færa forseta og varaforsetum Alþingis kærar þakkir fyrir samstarfið á þingvetrinum sem nú er að ljúka. Eins og þingmenn þekkja er forseti maður margra og helst langra funda. Í því samhengi er áhugavert að nú séum við í fyrsta skipti í alllangan tíma að ljúka þingstörfum á tilgreindum þinglokadegi samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Kannski var það yfirvofandi ósögð hótun um ótrúlega langa fundi þingflokksformanna með forseta [Hlátur í þingsal.] sem á endanum kældi áhuga þeirra sem helst vildu koma fleiri málum í gegn þetta vorið. Hver veit? Í öllu falli þá hefur forseti gott lag á að halda okkur, sem tilheyrum hópi þingflokksformanna, á mottunni sem er nauðsynlegt ætli forseti sér að hafa forsvaranlega stjórn á framgangi þingstarfa.

Ég vil sömuleiðis við þetta tækifæri fyrir hönd okkar þingmanna færa starfsfólki þingsins þakkir fyrir veturinn og lýsa aðdáun á því hvernig þeim tekst vetur eftir vetur dagana langa að tryggja að þetta gangi allt nokkurn veginn smurt fyrir sig þrátt fyrir að við þingmenn reynum iðulega að setja allt í hers hendur.

Nú bíður sumarið okkar með þeim fjölmörgu verkefnum sem það ber með sér. Það er skafl verkefna á flestum borðum sem þingmenn ýttu á undan sér með þá tálsýn í huga að það verði nægur tími til að leysa þetta þegar þingið er búið, við þekkjum þetta öll. Nú er það undirbúningur þingmála fyrir næsta haust og svo það verkefni sem iðulega er of lítill tími fyrir á meðan þing er að störfum, þ.e. að sinna kjördæmunum okkar, fara um og heyra í fólki og leggja við hlustir.

Að þessu sögðu vil ég ítreka þakkir okkar þingmanna til forseta, varaforseta og starfsfólks Alþingis og bið þingmenn að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. [Þingmenn risu úr sætum.] — Gleðilegt sumar.