136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þau orðaskipti sem hafa átt sér stað hér í andsvörum sýni að ekki var vanþörf á því að taka þetta mál til nefndar milli 2. og 3. umr. Þrátt fyrir það virðist svo vera að ýmsum spurningum sé enn ósvarað og ýmis góð og gild efnisatriði sem fram komu í 2. umr. virðast ekki hafa verið tekin til gagngerrar umræðu inni í nefndinni, a.m.k. skila þau sér ekki í framhaldsnefndarálitinu sem hér liggur fyrir.

Mig langar til að endurtaka þá spurningu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal beindi til formanns iðnaðarnefndar, hvað taka niðurgreiðslurnar til margra heimila? Í öðru lagi, á hvaða landsvæðum eru þessi heimili helst? Ef hægt væri að sundurgreina það í grófum dráttum (Forseti hringir.) fyrir mig væri ég nokkuð ánægður með það.