140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tók einmitt eftir þessari ábendingu hv. þm. Péturs Blöndals í ræðu áðan og fór að velta þessu ákvæði fyrir mér. Ég hygg að hér sé ekki um nýtt ákvæði að ræða heldur að hér sé byggt á eldra ákvæði, a.m.k. frá 2001, um skattleysi styrkja úr húsafriðunarsjóði. Engu að síður tek ég undir þá athugasemd hv. þingmanns að þegar verið er að fjalla um undanþágur frá meginreglum skattalaga er rétt að það sé skoðað út frá skattalegum sjónarmiðum líka, vegna þess að auðvitað hlýtur alltaf á einstökum sviðum að vera freisting að búa til undanþágur frá skattareglum vegna verkefna sem mönnum þykja jákvæð og mikil þjóðþrifamál eins og vissulega er hér um að ræða.

Spurningin er sú hvort það eru einhverjar meginviðmiðanir sem gilda í þeim efnum eða hvort þetta er, mér liggur við að segja, hæstv. forseti, handahófskennt.