145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Flestar spurningarnar snerta einungis starfsskilyrði sauðfjárræktar sem varðar aðeins einn af þeim fjórum samningum sem um er fjallað í búvörusamningunum. Í tengslum við vinnu og markaðssetningu búvörusamninganna var undirritað samkomulag í atvinnuvega- og umhverfisráðuneyti við Bændasamtök Íslands um loftslagsmál í landbúnaði. Í samþykktri sóknaráætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru fjölbreytt verkefni og meðal þeirra sem unnin verða er vegvísir um minnkun losunar í landbúnaði með samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands. Vegvísirinn mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi, greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sambærilegri vinnu í öðrum geirum og reynslu annarra þjóða. Vilji er til að vinna að meiri sátt um landnýtingarmál. Gerður hefur verið samningur við landbúnaðarháskólann um greiningarvinnu á þessu sviði. Meðal annars eru í 8. gr. rammasamningsins áætlaðar um 30.000.000 kr. á ári, þ.e. 300.000.000 kr. á samningstímanum, til að kortleggja gróðurauðlindina á Íslandi og koma á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi sem mun hjálpa til við beitarstjórnun og stuðla að sjálfbærni til framtíðar. Meðal annars er horft til þeirra rannsókna sem þegar hafa verið gerðar hér á landi af hálfu Landgræðslunnar, Náttúrufræðistofnunar og fleiri aðila, en einnig til þeirrar aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun beitir, sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna og fleiri þátta. Unnið er að undirbúningi þessa verkefnis í samvinnu við ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar sem og ráðuneyti umhverfis og auðlinda.

Á árinu 2013 fór fram ítarleg vinna við greiningu og endurmat á gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu og lauk þeirri vinnu með útgáfu nýrrar reglugerðar. Landgræðslan hefur fengið sérstaka fjármuni til að fylgja því eftir og reyndar viðbótarfjármuni þannig að sá hluti vinnunnar hefur í sjálfu sér gengið ágætlega.

Varðandi greiningu á þörf hinna ýmsu byggðarlaga fékk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í maí 2015 skýrslu frá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Það var líka stuðst við aðrar skýrslur, m.a. um stefnumörkun í markaðssókn íslenskra sauðfjárafurða sem og úttekt Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á stöðu kvenna í sauðfjárrækt. Í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri var greind staða ákveðinna þátta atvinnugreinarinnar og helstu þættir í starfsumhverfi. Í skýrslunni var einnig skoðað hvernig mögulegum framtíðarstuðningi við sauðfjárbúskap yrði best háttað út frá því markmiði að efla sauðfjárrækt í dreifðum byggðum, m.a. vegna þess að í sumum af þeim dreifðu byggðum væri engin önnur atvinna að mati skýrsluhöfunda. Í skýrslunni eru raktar þær helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið varðandi landbúnað og byggðastefnu. Þar á meðal er bent á að sé markmiðið að styðja jaðarbyggðir sérstaklega sem standa höllum fæti þyrfti að skilgreina hvaða landsvæði ættu að fá sérstakan byggðastyrk eða annars konar stuðning. Með vísan til niðurstaðna skýrslunnar var við gerð samningsins horft til þess að auka svæðisbundinn stuðning sem og að endurskilgreina þau svæði sem rétt eiga á þeim stuðningi. Byggðastofnun hefur nú verið falið að gera tillögur að þeim þáttum.

Varðandi það hvort litið hafi verið til mismunandi landgæða eru í reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu ítarleg skilyrði um landnýtingu. 94% sauðfjárframleiðslunnar í dag falla undir gæðastýringu og til stendur að byggja enn betur undir þá þekkingu sem er fyrir hendi á þessu sviði eins og verkefnið um mat á gróðurauðlindum sem ég nefndi áðan.

Í samningnum er líka áætlað að stærri hluti af greiðslunum renni í gegnum gæðastýringuna en til þessa. Það er sem sagt markmið að auka þann þátt í stuðningi við bændur vegna þessa þáttar.

Varðandi það hvort aðstæður væru andstæðar stuðningi er það þannig að samningurinn stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi og margvíslegri nýtingu lands og búsetu í sveitum en nú er. Því var ekki gerð sérstök greining á því hvort einhver stuðningur gæti komið illa út við einhverja aðra þætti. Eins og í mörgu öðru útilokar ekki eitt annað og því meiri fjölbreytni í atvinnulífi, því (Forseti hringir.) betra. Ég kem að vottun á afréttum í lokasvörunum. Þetta er fulllítill tími til að fara yfir svo umfangsmiklar spurningar.