132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[15:32]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í örstuttu máli vekja athygli á breytingartillögu sem ég hef flutt við frumvarpið hér við 3. umr. málsins ásamt hv. þingmönnum Dagnýju Jónsdóttur, Kristjáni L. Möller, Ögmundi Jónassyni og Guðjóni A. Kristjánssyni.

Í breytingartillögunni er gert ráð fyrir að felldur verði út úr frumvarpinu sá áskilnaður að bifreiðar í eigu björgunarsveita greiði sérstakt kílómetragjald eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frumvarpsins.

Einnig er breyting í breytingartillögunni um að bifreiðar björgunarsveita sem eru 10 tonn eða meira séu undanskildar almenna kílómetragjaldinu í 1. tölulið 1. mgr. 13. gr. laganna og er það til að gæta samræmis innan frumvarpsins verði breytingartillögurnar samþykktar.

Þá felst í breytingartillögunum að gert er ráð fyrir að auðkenna skuli bifreiðar björgunarsveita með sérstökum hætti í ökutækjaskrá.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, það hefur fengið nokkra umræðu í meðförum þingsins. Breytingartillögur þessar lúta að því að koma til móts við þau sjónarmið að þar sem björgunarsveitir eru sjálfboðaliðasamtök sem gegna afar mikilvægu og sérstöku hlutverki í þjóðfélagslegum skilningi sé eðlilegt að þær búi við skattalega hagkvæmt fyrirkomulag hvað þetta varðar. Frumvarpið, eins og það var lagt fram á þingi, gerði vissulega ráð fyrir því að um bifreiðar björgunarsveita giltu ákveðnar sérreglur en með þessari breytingartillögu er gengið lengra í þeim efnum með því að fella alveg niður skattheimtu á það eldsneyti sem björgunarsveitir nota á bifreiðar sínar. Ég vonast til þess að hv. þingmenn geti stutt þessa breytingu í ljósi þeirrar sérstöðu sem starfsemi björgunarsveitanna í landinu hefur.