136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hæstv. forsætisráðherra. Nokkra athygli hefur vakið að stjórnarflokkarnir í minnihlutastjórninni hafa náð saman um málefni, sem er í sjálfu sér athyglisvert. Það málefni er fyrningarleið í sjávarútvegi og hafa þeir lofað að koma henni í framkvæmd að því gefnu að þeir fái tækifæri til þess á næsta kjörtímabili.

Ég vildi, virðulegi forseti, spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem þekkir þessi mál mjög vel, hvaða áhrif hæstv. forsætisráðherra telur að fyrningarleiðin, eins og Samfylkingin og Vinstri græn leggja hana upp og þá kannski sérstaklega Samfylkingin, hafi á greiðslugetu sjávarútvegsins. Eins og við þekkjum, virðulegi forseti, skulda sjávarútvegsfyrirtækin um 400–500 milljarða kr. í íslensku bönkunum.

Virðulegi forseti. Ég held að áhugavert væri að fá að vita hvaða áhrif hæstv. forsætisráðherra telur að þetta hafi á greiðslugetu sjávarútvegsins.