138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir fyrirspurnina en hann er að vísa til frumvarps sem búið er að afgreiða út úr ríkisstjórn eftir því sem maður heyrir í fréttum. En það er því miður erfitt fyrir mig að taka afstöðu til máls sem ég veit akkúrat ekkert um. Það á að kynna það fyrst í þingflokkunum og eftir því sem fréttir herma mun það standa fast þar dálítinn tíma. Eigi að síður hefur formaður Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra, boðað að hann muni flytja í það minnsta einhverja stöðuskýrslu um málið áður en vorþingi lýkur en það var stefnan að þetta mál yrði klárað á þessu þingi. (Utanrrh.: Svaraðu.) — Hæstv. utanríkisráðherra hvetur mig til að svara og gera þá það sem hann er ekki vanur að gera, hann snýr oft og tíðum út úr í stað þess að svara.

Mín afstaða í þessu liggur fyrir og mér líkar ekki alhæfing hv. þm. Magnúsar Orra Schrams þegar hann spyr: Hver er skoðun Sjálfstæðisflokksins í þessu máli? Mín skoðun er sú að ég tel mjög óskynsamlegt við þessar aðstæður að fara að skera sjávarútvegsráðuneytið niður þannig að það fari að hluta til inn í iðnaðarráðuneytið. Ég segi hins vegar enn og aftur að ég vil fá að sjá þessar tillögur áður en ég tek endanlega afstöðu til þeirra. Ég er aftur á móti algerlega sammála því sem hv. þingmaður segir, og tek undir það, að við sjálfstæðismenn höfum alltaf viljað sýna ábyrgð í ríkisfjármálum. Það hefði kannski verið betra fyrir stjórnarflokkana á hlusta á tillögur okkar í haust í sambandi við fjárlagagerð, tillögur um að skera 8 milljarða meira niður en ríkisstjórnin var tilbúin að gera. Það var mjög sérstakt að stjórnarandstaðan legði það til og væri tilbúin að standa með stjórnarflokkunum í því. Það þótti mjög sérstakt en því miður var því hafnað. Og ekki bara það, ef valin hefði verið sú leið sem við lögðum til, að taka skatttekjur af séreignarsparnaði í staðinn fyrir skattahækkanir, hefðum við skilað fjárlögum með 60 milljarða halla en ekki 100. Ég er viss um að hv. þm. Magnús Orri Schram væri sáttur við að geta (Forseti hringir.) tekið þá ákvörðun til baka.

Ég vil að lokum segja að ríkisstjórnin færði 2,5 milljarða í skatttekjur frá sveitarfélögunum inn í sjálfan ríkiskassann (Forseti hringir.) til að þurfa ekki að taka á vandamálunum sjálf. Hún lét sveitarstjórnarfólk um allt land gera það fyrir sig.