139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma upp og ítreka og taka undir beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að við sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd ásamt hv. þm. Jóni Gunnarssyni fórum fram á það að á næsta reglulega fundi nefndarinnar yrði haldinn opinn fundur um fyrirhuguð frumvörp um sjávarútvegsmál. Ein af ástæðunum fyrir því að við óskuðum eftir að haldinn yrði opinn fundur er sú að það hefur satt best að segja verið þannig verklag á þessu máli að því hefur verið haldið inni í ráðuneytum (Forseti hringir.) og hjá stjórnarflokkunum og því væri kannski óvitlaust að hefja umræðuna á að hafa opinn fund þar sem menn mundu varpa skýru ljósi á hver stefnan er í frumvarpinu.