144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður fór yfir gildi þessarar áætlunar og hversu litlu máli hún skiptir í raun og ég er alveg sammála hv. þingmanni hvað það varðar að erfitt er að sjá fyrir sér hvernig eigi að nota þessa áætlun. Sannarlega er hún ekki í takti við umræður um meiri aga og betri áætlanir, bæði til lengri og skemmri tíma, eins og rætt hefur verið um í tengslum við frumvarpið um opinber fjármál.

Þó eru í áætluninni nokkur pólitísk stefnumál sem er hægt að ræða í þessum þingsal. Hv. þingmaður er fulltrúi Bjartrar framtíðar í efnahags- og viðskiptanefnd og það er fjallað um skattamál í ríkisfjármálaáætluninni og stefnuna þar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það að í ríkisfjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að tryggingagjaldið lækki en í yfirlýsingunni sem búið er að gefa með kjarasamningum er það dregið til baka. Finnst hv. þingmanni ekki upplagt að tryggingagjaldið yrði lækkað og það gengi til starfsmannanna þar sem tryggingagjaldið er tekið af hverjum starfsmanni? Ég spyr hv. þingmann hvað honum finnst um það.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvort það hafi verið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd að það eigi að breyta skattlagningu á ökutæki og eldsneyti strax á árinu 2016. Veit hv. þingmaður í hvaða veru sú breyting á að vera? Var rætt í nefndinni um hvernig ætti að endurskoða virðisaukaskattskerfið til að styrkja það sem tekjuöflunartæki? Það er einnig talað um það í áætluninni.