140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti hæstv. ráðherra til að sækja meira fé í næstu fjárlögum til gjafsóknarmála og annarra góðra verka í ráðuneyti sínu og ég treysti honum jafnframt til þess hér eftir sem hingað til, eftir að Alþingi hefur samþykkt það frumvarp sem hér liggur fyrir, að gæta jafnræðis og tryggja rétt lítilmagnans til að fá úrlausn sinna mála í ráðuneytinu. Við erum ekki að tala um annað en að þau efnislegu skilyrði sem hér voru til að óska eftir gjafsókn í 12 ár, fram til ársins 2004 eða 2005, verði endurvakin þannig að menn geti farið fram með málshöfðun á hendur opinberum aðilum, við skulum segja vegna læknamistaka eða vegna mistaka í stjórnsýslunni, án þess að þurfa beinlínis að strauja sig í götuna vegna kostnaðar við það, en það er því miður algengt. Það kemur fyrir því miður.

Það voru lítil rök fyrir þeim breytingum sem þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, gerði á þessum lögum og það er rétt sem hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sagði, hann barðist harkalega gegn því. Það gerðum við fleiri hér. Þess vegna hljótum við að fagna tækifæri til að setja þessi efnislegu skilyrði aftur inn í lögin sem grundvöll fyrir því að mega óska eftir gjafsókn. Það er síðan alltaf vandi þess sem útdeilir fjármagni hvernig því er varið. Það er sérstök leið til þess í gjafsóknarnefndinni að meta og þar eiga menn að meta hverja umsókn fyrir sig, ekki eina á kostnað annarrar heldur út frá efni máls og aðstæðum.