136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert skýrt nákvæmlega og það er um það ágreiningur hvað hugtakið þjóðareign þýðir. Þó að hv. þingmaður haldi þessu fram og vísi m.a. í álit auðlindanefndarinnar er það bara ljóst mál, m.a. af lestri umsagna sem liggja fyrir, m.a. frá Orkustofnun, að þetta hugtak er alls ekki ljóst og þess vegna þarf að skýra það. Ég útiloka ekki nema síður sé að þetta hugtak fari inn í stjórnarskrána og í raun og veru get ég vísað til þess að í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar var einmitt kveðið á um að það skyldi gert.

Varðandi þjóðaratkvæðið vil ég bara segja að við getum út af fyrir sig tekið undir að við eigum að skipa þeim málum. Það þarf að átta sig á því hvort við eigum að nota þessi 15% eða einhverja aðra reglu og ég get ekki rætt alla þá hluti á fáeinum sekúndum. Við erum alveg tilbúin til að fjalla um þessa hluti en við höfum einfaldlega farið fram á að það sé gert með vandaðri hætti en hér er verið að gera og í meiri sátt. Mér finnst það ekki óbilgjörn krafa.