144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Sannleikanum er kannski hver sárreiðastur þegar við ræðum þetta. Ég sagði nú ekkert meira hér en oft hefur verið nefnt í þessum þingsal í ræðum manna þegar fjallað er um kjördæmi og þær áherslur sem menn leggja á verkefni í sínum kjördæmum. Það blasir við, virðulegi forseti, og þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það. Það er í sjálfu sér kannski ekkert óeðlilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi kosið að leggja mikla áherslu á uppbyggingu stóriðju við Bakka. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ég studdi það mál og þeim stuðningi var fagnað. Ég var ekki beðinn þá að fara heim og láta mér vaxa barta og mæta í útvíðum buxum þegar ég lýsti yfir stuðningi við það mál. Nei, því var fagnað og við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn studdum þetta verkefni.

Ég er fyrst og fremst að benda á tvískinnungsháttinn í málflutningi þessara flokka, virðulegi forseti, sem er svo hrópandi þegar við ræðum rammaáætlun, virkjanir í neðri Þjórsá versus virkjanir á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi og uppbyggingu orkufreks iðnaðar (Forseti hringir.) á Bakka við Húsavík annars vegar og hins vegar mögulega uppi á Grundartanga eða suður í Helguvík. Tvískinnungshátturinn í málflutningnum er hrópandi, virðulegi forseti.