136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna út af fyrir sig þessu sáttatilboði hv. þingmanns og ég er alveg sammála því að við þurfum að reyna að sátt í þessum efnum. Það er það sem málflutningur okkar alveg frá fyrsta degi hefur gengið út á.

Ég held hins vegar að það sé ekki raunhæft að menn komist að niðurstöðu í þessum efnum á þeim fáu dögum sem eftir eru þar til þinginu lýkur. Nú veit ég ekki hvað hv. stjórnarliðar hafa hugsað sér að þingið standi lengi en það er alveg ljóst mál að menn hafa ekki mjög marga daga til stefnu. Og ég held að það sé ákaflega óskynsamlegt að reyna að knýja þetta mál fram í ósætti og þess vegna eiga menn einfaldlega að taka því einlæga sáttaboði okkar að afgreiða tiltekinn hluta þessa frumvarps sem opnar á þá leið að auðvelda breytingar á stjórnarskránni. Síðan getum við farið í þær breytingar sem ég held að við gætum orðið sammála um ef við ætlum okkur til þess lengri tíma.

Hv. þingmaður lýsti frumvarpinu og sagði svo: Flóknara er þetta mál ekki. Málið er samt flóknara en svo vegna þess að þetta er spurning um grundvallaratriði. Hér var rætt um þjóðareignarhugtakið og ég vísaði til þess að um það mál væri ágreiningur, t.d. hvað það hugtak nákvæmlega þýddi. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði sína skoðun á því og hafði uppi rök um það sem eru út af fyrir sig málefnaleg rök. En ég vek t.d. athygli á umsögn sem ég hef í höndunum frá Orkustofnun sem vísar til þessa hugtaks, segir að það megi skilja með tvenns konar hætti og segir svo:

„Hvor skilningurinn sem lagður er til grundvallar þá er þetta óskiljanlegt.“ Þetta eru engir aukvisar. Þetta eru aðilar sem ég geri ráð fyrir að séu flesta daga að hugsa um þetta hugtak í ljósi verkefna sinna. Þetta er dómurinn um frumvarpið. Ég segi bara að mér fyndist óðs manns æði að láta sér detta í hug að afgreiða í hasti og svona miklu ósætti mál þar sem grundvallarhugtökin eru sögð óskiljanleg. Þetta (Forseti hringir.) er að verða pólitískur leikur af hálfu stjórnarliðsins, (Forseti hringir.) því miður, og þannig á ekki að fara með stjórnarskrána.