149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmanni tókst að tala í tvær mínútur og jafnvel tala sig upp í smáæsing af því að hann þurfti að tala svo mikið fram hjá mínum tveimur beinu spurningum sem hann vék ekki einu orði að. Þess vegna ætla ég að nýta þessa mínútu til að endurtaka spurningarnar. Ég vona að hv. þingmanni dugi sú mínúta sem hann hefur til að svara þeim í þetta skiptið.

Hvar eru fyrirvararnir sem hv. þingmaður útskýrði í löngu máli áðan hvað hefðu þýtt? Þeir voru reyndar ekki eignaðir akkúrat réttum hv. þingmönnum í Miðflokknum en látum það vera. Hafði hv. þingmaður rangt fyrir sér þar? Ætti hann þá ekki að leiðrétta það hér, að það eru engir fyrirvarar?

Textinn sem býr að baki breytingartillögunni minnir ansi mikið á tölvubréf sem hv. þingmenn í atvinnuveganefnd fengu í morgun frá framkvæmdastjóra eins fiskeldisfyrirtækis. Á breytingartillagan uppruna sinn þar?