149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti um nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2000, nr. 106/2000, og ætla að fara með örstutt mál til skýringar á þessu frumvarpi. Það var svo að upprunalegt breytingarfrumvarp innihélt nokkur ákvæði umfram þau sem innleiðing EES-gerðarinnar tekur til en frumvarpið sem hér er til afgreiðslu er hins vegar hreint innleiðingarfrumvarp þessarar gerðar eins og gerð er betur grein fyrir í nefndarálitinu sem ég fer í gegnum á eftir.

Nefndin fékk 20 umsagnir og tók á móti níu gestum og vann svo þetta nefndarálit á nokkuð skömmum tíma.

Með þessu frumvarpi, herra forseti, eru lagðar til breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera og einkaaðila kunna að hafa á umhverfið sem átti að innleiða fyrir 16. maí 2017. Með frumvarpinu er einnig verið að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins um samningsbrot gegn Íslandi (mál nr. E-6/18) frá 14. maí sl. þar sem Ísland hefur ekki innleitt tilskipunina. Frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni var lagt fram á 148. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Einnig eru lagðar til breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, og lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.

Í frumvarpinu eru lagðar til fjölmargar breytingar á lögunum og nýmæli, svo sem ákvæði um gildistíma ákvörðunar um matsskyldu, ítarlegri kröfur um upplýsingar í frummatsskýrslu, mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Þá er lögð til heimild til að samþætta skýrslugerð og til að sameina mat á umhverfisáhrifum samkvæmt þeim lögum, lögum um umhverfismat áætlana og skipulagslögum. Fram komu ábendingar um að í frumvarpinu sé að sumu leyti verið að ganga lengra en samkvæmt tilskipuninni og að það myndi stuðla að meiri gæðum ef málinu væri frestað og það skoðað samhliða heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Fyrir liggur að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur verið falin heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins ber honum að skila drögum að frumvarpi í síðasta lagi 1. janúar 2020. Nefndin telur að í ljósi dóms EFTA-dómstólsins sé nauðsynlegt að ljúka innleiðingu tilskipunarinnar á yfirstandandi þingi en ekki fresta afgreiðslu þess og bíða niðurstöðu starfshópsins.

Herra forseti. Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þannig að það feli í sér hreina innleiðingu á tilskipun, eins og áður segir. Nefndin leggur því til að þau ákvæði sem ekki lúta beint að innleiðingu tilskipunarinnar verði felld brott eins og orðalagsbreytingar í skilgreiningum laganna sem er að finna í a–e-lið 1. gr. og í 7. og 8. gr. frumvarpsins. Þá leggur nefndin til að a-liður b-liðar 3. gr. um efni mats á umhverfisáhrifum orðist í samræmi við orðalag tilskipunarinnar. Bendir nefndin á að við yfirstandandi vinnu við heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum og tengdra laga þarf að gæta sérstaklega að samræmi í skilgreiningum á milli lagabálka. Einnig er lagt til að felld verði brott ákvæði er varða valkvæðar undanþáguheimildir tilskipunarinnar sem eru í 4. og 6. gr. frumvarpsins.

Nefndin leggur til að ákvæði er varðar tímamörk við ákvörðun um endurskoðun umhverfismats í 11. gr. frumvarpsins verði fellt brott og beinir því til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að það verði tekið til ítarlegrar skoðunar við heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem fyrir nefndinni kom fram að meiri tíma þyrfti til að skoða breytinguna og áhrif hennar. Einnig er lagt til að felld verði brott tillaga að breytingu á ákvæði skipulagslaga er varðar breytingu á gildistíma framkvæmdaleyfa úr 12 mánuðum í tvö ár en það tengist beint ákvæði frumvarpsins um tímamörk við ákvörðun um endurskoðun umhverfismatsins. Önnur atriði sem nefndin leggur til breytingar á tengjast framangreindum breytingum á frumvarpinu. Þá er lagt til að gildistaka laganna verði 1. september nk. til að gefa framkvæmdaraðilum, Skipulagsstofnun og sveitarstjórnum frekara svigrúm til undirbúnings vegna breytinganna sem frumvarpið felur í sér. Auk þess leggur nefndin til smávægilegar lagfæringar.

Þá er því til að dreifa að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali sem liggur frammi eins og vera ber. Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Helga Vala Helgadóttir og Hanna Katrín Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta með heimild samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Þá rita undir álitið sá sem hér talar, Ari Trausti Guðmundsson, fyrsti varaformaður og framsögumaður, Brynjar Níelsson, Helga Vala Helgadóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hanna Katrín Friðriksson.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.