150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mat á áhrifum er alltaf gríðarlega áhugavert og nauðsynlegt, sérstaklega í því umhverfi sem hér er. Við viljum hafa valmöguleika og þess vegna setjum við í lög um opinber fjármál að greint sé frá mismunandi valmöguleikum og útskýrt af hverju annar er betri en hinn. Og ef einhverjir tveir valmöguleikar eru svipað góðir kemur í rauninni til kasta pólitíkurinnar. Þegar allt kemur til alls verður það siðferðislegt álitamál hvaða leið við veljum. Það er rétt að yfirleitt er það neikvætt mat sem við sjáum í frumvörpum. Það er alltaf ákveðin baunatalning í gangi og vantar upp á að framfylgja þeim hluta laga um opinber fjármál sem tekur þessi skref.

Oft hefur verið kvartað undan því við mig að það sé frekar erfitt að gera nákvæmt kostnaðarmat. Ég hef alltaf sagt að það þurfi ekki að vera nákvæmt þegar við erum að byrja á þessu. Við byrjum á gróflegu kostnaðarmati og lærum smám saman á hvaða skapalón okkur finnst auðvelt að nota. Við þróum það og bætum það eftir því sem líður á. Við lærum, sjáum og gerum þessa sviðsmyndagreiningu og þetta kostnaðarmat núna. Við metum síðan áhrifin af lagasetningunni, berum það saman við matið sem við bjuggumst við og sjáum hvort það sé í plús eða mínus. Við aðlögum getu okkar til að skoða og spá fyrir um framtíðarmat í næstu frumvörpum sem verið er að vinna. Við lærum og gerum betur og verðum nákvæmari. Þannig minnkum við smám saman þann kostnað sem fylgir því að gera kostnaðarmat. Þetta verður vonandi sjálfvirkara því að við þekkjum orðið fleira. En við þekkjum ekki neitt og við lærum ekki neitt ef við byrjum ekki (Forseti hringir.) einu sinni á því.