150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta liggur nákvæmlega svona fyrir. Pólitíkin er undirliggjandi í þessu öllu eins og hún á að vera og þess vegna hefði verið gott að hún væri a.m.k. gegnsæ, sú pólitík sem á sér stað hér við skipan þessarar stjórnar. Ég kem svolítið aftur að þeirri spurningu: Af hverju ekki? Við höfum rætt það hér í dag og tekin hafa verið dæmi um aðra sjóði eða nýleg mál þar sem þetta hefur farið öðruvísi. Ég hef fullan skilning á því að það þykir mikið flækjustig, sérstaklega þessi fyrstu skref á meðan fjárhæðirnar eru ekki hærri en þær eru, að vera að koma með fjölmargar undirfagnefndir o.s.frv. Fyrr má nú rota en dauðrota og allt það. En það hefði verið hægt að fara aðra leið og þá kem ég aftur að því sem er svolítið útgangspunkturinn, að það er enginn rökstuðningur (Forseti hringir.) fyrir þessu. Það er þessi „af því bara“-tilhneiging (Forseti hringir.) þegar á ekki að breyta neinu. Það hefði verið hægt að forðast það hér.