150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:45]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kom einmitt inn á þennan áhugaverða punkt sem er hitaveitan. Hann talaði um hversu mikilvæg ákvörðun það var, en það var bara langt frá því að vera auðveld ákvörðun. Í dag horfum við á þessa ákvörðun og hugsum bara: Auðvitað. Hitaveituvæðing er skynsamleg. Þetta var mjög skynsamleg ákvörðun en það var rifist um hana á sínum tíma út af því að þetta var náttúrlega gríðarlega mikil stofnfjárfesting. Mig langar því að spyrja hv. þingmann í síðara andsvari: Væri ekki ástæða til að setja meira fjármagn í að leita að heitu vatni á köldu svæðunum? Það er vissulega veðmál, maður getur hitt á það eða ekki, en þegar menn hitta á heitt vatn er það svo rosalega dýrmætt.