150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að það er kynslóðamunur á Alþingi eins og víðar í samfélaginu. Það er misskilningur hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar að einhvers konar virðingarleysi felist í því að vera ekki í jakka, hvort sem það er hér í pontu eða annars staðar. Það er einfaldlega ekki virðingarleysi. Mér þykir mjög leitt að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson taki klæðaburð hv. þingmanns svo alvarlega. Ég vona að það breytist. Það er alvanalegt að þingmenn mæti í pontu og jafnvel í forsetastól án þess að vera í jakka en auðvitað bara ef um konur er að ræða. Ég vildi bara koma hingað upp og leiðrétta það að þetta sé einhvers konar virðingarleysi. Það er einfaldlega misskilningur, virðulegur forseti. Ég minni einnig á að það er ekkert voðalega langt síðan að það var regla hér að karlmenn væru með bindi. Svo kom hrun og karlmenn voru sendir heim til sín til að sækja bindi ef þeir voru ekki með það. Það var tímasóun, virðulegi forseti, eins og þessi umræða.