150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Góðir stjórnarhættir. Við ættum náttúrlega að nálgast lagasetningu þannig að það sé sameiginlegt verkefni okkar allra 63 sem sitjum hérna inni. Kannski endurspeglar það ákveðinn veruleika að við séum að tala um það hvernig ráðherra fer með þessi völd. Við ættum náttúrlega að fara með það vald sameiginlega með ráðherra þegar þetta frumvarp er að verða að veruleika og varðandi það hvernig löggjöfin lítur að endingu út. Það má kannski orða það þannig að þetta snúist um stjórnunarhætti, en ég myndi líka segja að þetta snúist um gæði lagasetningar, hvernig við viljum að lögin líti út. Er ekki almenna reglan sú að maður eigi að geti lesið reglur og ákvæði og náð og skilið hvert grunnstefið er? Auðvitað getur það ekki verið tæmandi upptalning, en t.d. í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir, að hér er orkustefna undir, nýsköpunarstefna, byggðastefna og stefna í loftslagsmálum, hefði þá ekki komið til álita að hér kæmi að fólk úr fleiri áttum?

Mér finnst þetta tengjast því, sem situr aðeins í mér eftir að vera komin hingað inn, að í aðra röndina sé einhver tilhneiging hér innan húss varðandi lagasetningu að vilja ekkert samtal um breytingar. Þær eru óskaplega þungar í vöfum og nánast engu hægt að ná fram. Það vantar einhvern veginn þetta miðjusvæði í lagasetninguna. Svo erum við líka upplifa það núna á allra síðustu dögum þingsins að verið er að hrófla við frumvörpum og eiga við þau þannig að einhver slys geta orðið. Það á ekki við um þetta mál. (Forseti hringir.) En mér finnst þetta kannski frekar vera spurning um hvaða metnað ráðherra og ríkisstjórnin hafa fyrir gæðum lagasetningar.