136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:09]
Horfa

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að það sé rétt að taka stutt hlé núna og vita hvort einhver möguleiki er á því að ná sáttum um að setja málið í nefnd aftur og fresta umræðunni. Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki afstöðu til málsins og við stöðvum núna, gerum stutt hlé og komumst að niðurstöðu um hvernig verður fram haldið.

Að öðru leyti vil ég jafnframt benda á að það er fundur í utanríkismálanefnd í fyrramálið klukkan átta og það er fundur klukkan hálftíu í allsherjarnefnd. Hér hafa þingmenn verið á þingfundi í allan dag og á nefndarfundum í morgun. Og ég verð nú að segja það að ég hef dáðst að hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem hefur setið hér í allan dag og reyndar einnig hv. þm. Atli Gíslason og verið í andsvörum. Ég er farin að finna aðeins til með þeim hvað þeir eru orðnir lúnir og þreyttir. Ég mundi alveg styðja það (Forseti hringir.) ef hæstv. forseti vildi fara að stytta fundinn í annan endann. En ég ítreka (Forseti hringir.) að ég óska eftir því að stutt hlé verði gert til að leita niðurstöðu í þessu máli.