150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir áhugaverða og góða ræðu um frumvarpið sem við erum með til meðferðar. Ég hjó eftir þeim orðum hans, sem ég held að við séum öll sammála um, að við þurfum að nýta orkuna betur. Orka er kannski eitt þeirra orða sem maður er nánast feiminn við að taka sér í munn í pólitísku samhengi, eftir umræðu í ótengdu máli. En gott og vel: Nýta orkuna okkar betur og svo það sem hann tengdi svo skemmtilega við, að við þyrftum þá jafnframt að nýta bestu mögulegu fagþekkingu á hverju sviði.

Mig langar til að setja það aðeins í samhengi við 3. gr. frumvarpsins um stjórnina. Ég er töluvert föst þar. Samkvæmt greininni hefur stjórnin yfirumsjón með umsýslu sjóðsins. Það gerir hún í samræmi við hlutverk sjóðsins. Orkustofnun annast síðan daglega umsýslu sjóðsins undir yfirstjórn stjórnarinnar. Þá er það kannski þessi punktur, í samhengi við bestu mögulegu fagþekkingu, og þessi grein um að ráðherra skipi þrjá einstaklinga í stjórnina til fjögurra ára, einn sé skipaður formaður. Við höfum svo sem rætt það hér fyrr í kvöld hvernig best færi á því að skipa í stjórn sem þessa, að teknu tilliti til hlutverks sjóðsins o.s.frv. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar, því að ég er nú þar, að málefnaleg sjónarmið þurfi að ráða för en að kannski sé ekki alltaf hægt að svipta pólitíkina pólitíkinni. Er það þannig, að mati hv. þingmanns, að hér ættu eingöngu að vera skipaðir þeir þrír aðilar sem hafa bestu mögulegu fagþekkingu?