131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:16]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi ekki hv. þingmann. Hann talar um að aukið fé í umferð í þjóðfélaginu valdi því að það sé auðveldara að fara í framkvæmdir. Ég hélt að það væri einmitt þannig að menn ættu að halda að sér höndum, það er mikið af auknu fé eins og er í íbúðalánum og menn ættu að halda aftur af sér.

Ég vil svara hv. þingmanni eftirfarandi: Ef menn horfa á framkvæmdafé sem fer í þetta árin 2007–2008 er það aukið verulega. Menn drógu úr framkvæmdunum hér á árunum 2005 og 2006 til að vinna á móti þenslu, til að halda verðbólgunni niðri og allt það. Eins og ég sagði hafa viðmiðin breyst svo gífurlega frá því að menn tóku þessa ákvörðun á síðasta ári. (Gripið fram í.) Menn fara eins og að drekka vatn í framkvæmdir sem kosta hálfan eða einn og jafnvel tvo milljarða, bara hjá sveitarfélögunum.

Einn milljarður er allt önnur tala en var fyrir einu eða tveimur árum.