138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Þótt ég hafi ekki mikinn áhuga á að fara í embætti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hef ég kannski menntun til að fara í það embætti, en það er annað mál.

Hv. þingmaður spyr hvort ég sé sammála því að þetta sé bara lítið skref af mörgum sem þarf að stíga. Ég er sammála því en ég er ósammála því að það megi ekki byrja bútasauminn strax heldur eigi að skoða heildarsamhengið áður en gripið er inn í regluverkið. Ég tel einmitt þvert á móti að það sé mjög nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og ígrunda mjög vel allar þær áfangabreytingar sem við gerum á regluverki fjármálafyrirtækja og taka þann tíma sem við þurfum í það.