150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki í nefndinni þannig að ég er ekki með neinar tölur á hreinu hvað þetta varðar, hvað þetta myndi kosta, en að sjálfsögðu er hægt að athuga hvað það eru margir sem nota þetta og dreifa því á alla bíla á landinu. Menn segja að það séu ekki til nógir peningar í vegaframkvæmdir og alltaf lækka bensíngjöldin, það eru að koma rafbílar o.s.frv. Menn tala og tala og benda á vandamálið. Hvar er lausnin? Það er mjög einföld lausn. Ef þú vilt hafa áfram flatan skatt eða flöt gjöld, þannig að allir borgi sama gjald, miðað við hvað þeir nota vegakerfið, þá geturðu gert það með kílómetrastöðu á bílunum. Þá lestu það. Það er bannað að fikta í því. Menn geta fiktað í því og svindlað. Þá er bara hægt að setja sterkari viðurlög við því og betri rannsóknir á því hvernig það er gert.

Menn svindluðu líka varðandi dísilið og skiptu um vélar, notuðu dísilvél sem var með lit í þannig að menn gátu keypt ódýrara litað dísil sem er notað á vinnuvélar og svoleiðis. Menn svissuðu bara vélinni. Það eru alls konar hlutir sem hægt er að gera til að svindla. Þú getur aldrei búið til kerfi þar sem enginn svindlar, þú getur náð nánast öllum og þá borga allir flatt. Ef menn vilja áfram vera með flata gjaldheimtu er hægt að gera það með kílómetragjaldinu og að tryggja það að þessir peningar, sem eru teknir inn, rati í vegaframkvæmdir og það er það sem er ekki í dag og ekki einu sinni varðandi þau gjöld sem eru almennt tekin af bifreiðaeigendum. Þetta er bara meðvituð stefna þeirra sem hafa stjórnað þessu landi í mjög langan tíma að nota peningana í annað en vegaframkvæmdir. Það er alveg hægt að gera þetta og borga fyrir það.