149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um töflu 5 um heildarútgjöld málefnasviða. Undir þá töflu fellur málefnasvið um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem gerð er tillaga um ríflega 600 millj. kr. lækkun til, á sama tíma og gert er ráð fyrir aukningu á framlögum til viðhalds varnarmannvirkja NATO á Keflavíkurflugvelli. Mér finnst bagalegt að við séum að lækka framlög til fátækustu bræðra okkar og systra á sama tíma og við erum að hækka framlag vegna viðhaldsþarfar hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Sömuleiðis er undir þessari sömu heildarútgjaldatöflu verið að draga úr heildarútgjöldum til umhverfismála — þó að þau hafi verið að aukast í tíð þessarar ríkisstjórnar á síðustu árum og það er vel. En ég bind vonir við að eins og talað er um í nefndaráliti hv. fjárlaganefndar sé gert sé ráð fyrir því að þessi framlög til þróunarsamvinnu verði löguð í haust í fjárlögum. Ég vona sannarlega (Forseti hringir.) að þau orð standist en get ekki stutt þessa töflu að svo komnu.