149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður spyr með hvaða hætti hefði átt að vera með mótvægisaðgerðir gagnvart því að hér yrðu hugsanlega þær breytingar í flugrekstri sem síðan raungerðust, að annað flugfélaganna hætti starfsemi. Það sem við kölluðum eftir í nefndinni á þessum tíma voru fráviksspár, að menn settu upp sviðsmyndir um það hvaða áhrif það myndi hafa ef hlutirnir raungerðust. Það er vissulega verið að bæta úr því með fráviksspárnar en þarna var mjög krítískur tími, ef svo má að orði komast. Ég bendi hv. þingmanni á að Miðflokkurinn stóð fyrir sérstakri umræðu um stöðu millilandaflugfélaganna síðasta haust þar sem við höfðum miklar áhyggjur af rekstri þeirra, sérstaklega rekstri flugfélagsins WOW. Það tók samgönguráðherra langan tíma að koma í þá umræðu. Það voru ýmis teikn á lofti með það flugfélag sem hefðu að mínu mati átt að gera það að verkum að t.d. Samgöngustofa hefði átt að koma inn í það mál.

Eiginfjárhlutfall félagsins var í júnímánuði 2018 komið niður í 4% sem er afar lágt og félagið skilaði ekki ársreikningum o.s.frv. Á þessu stigi hefði maður talið að þarna hefði Samgöngustofa átt að koma inn í og gera grein fyrir því að það yrði að gera verulegar breytingar á rekstrinum. Hún veitir leyfið og á að fylgjast með fjárhagslegri stöðu flugfélaganna. Það voru ýmis teikn á lofti um að áhyggjur fjárlaganefndar um flugsætin, eins og hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) réttilega, raungerðust. Við í Miðflokknum teljum viðbrögðin ekki hafa verið nægilega öflug.