150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um þetta frumvarp sem fjallar um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og fjallar um EES-reglur, plastvörur sérstaklega.

Minni hlutinn tekur undir og vísar til almennrar umfjöllunar í nefndaráliti meiri hlutans um meginmarkmið og efni frumvarpsins. Minni hlutinn telur að frumvarpið hafi færst til betri vegar í meðförum nefndarinnar og að breytingartillögur í nefndaráliti meiri hlutans séu mjög til bóta, t.d. hvað varðar lagfæringar sem meiri hlutinn gerði t.d. um áfasta plasttappa og var verið að gera grein fyrir hér rétt áðan.

Þá tekur minni hlutinn heils hugar undir mikilvægi þeirra markmiða sem að er stefnt með frumvarpinu, þ.e. að draga úr áhrifum plasts á umhverfið og heilsu fólks, vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, að draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara. Við tökum undir það en við teljum annmarka á þessu frumvarpi það mikla að best færi á því að lagfæra það í samráði við hagsmunaaðila og leggja það fram að nýju á næsta þingi.

Meginefni frumvarpsins snýr að banni við að setja á markað tilteknar einnota plastvörur og afhenda einnota bolla og matarílát án endurgjalds. Það snýr að kröfu um gerð og samsetningu tiltekinna drykkjaríláta, að komið verði á opinberu eftirliti með eftirfylgni lagaákvæða um plastvörur og sett verði lagastoð fyrir reglugerðarákvæði um plastvörur.

Með vísan til þess að tilskipun (ESB) 2019/904 hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn komu fram sjónarmið fyrir nefndinni um óþarfa þess að lögfesta efnisreglur tilskipunarinnar á þessum tímapunkti og að ekki hafi skapast þjóðréttarleg skylda fyrir okkur Íslendinga til innleiðingar á þessum reglum í landsréttinn. Málið væri enn til skoðunar á vettvangi EES og EFTA-ríkjanna og því ekki loku fyrir það skotið að efnisreglur eða gildistökuákvæði tilskipunarinnar taki breytingum. Nefna má í því sambandi, með vísan til greinargerðar frumvarpsins, að þá ber framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eigi síðar en 3. júlí næstkomandi í samráði við aðildarríkin að birta viðmiðunarreglur um einnota plastvörur, þar með talið dæmi um hvað skuli teljast vera einnota plastvara í skilningi tilskipunarinnar. Þetta á sem sagt að birtast núna eftir nokkra daga.

Þá bendir minni hlutinn á að ákvæði tilskipunarinnar koma í meginatriðum til framkvæmda innan Evrópusambandsins 3. júlí 2021, þ.e. eftir rúmt eitt ár, og hluti tilskipunarinnar kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árunum 2023 og 2024 og því nægur tími til stefnu að vinna málið betur. Fyrir nefndinni voru einnig gerðar athugasemdir við að með frumvarpinu væri aðeins lögð til lögfesting hluta efnisreglna tilskipunarinnar, t.d. ekki ákvæði hennar um framlengda ábyrgð framleiðenda á plastvörum.

Herra forseti. Regluverk úrgangsmála hér á landi einkennist af bútasaumi með hinum ýmsu lagareglum í mismunandi lagabálkum. Lagaumhverfið er tyrfið, illskiljanlegt og síðast en ekki síst óaðgengilegt fyrir almenning og þær stofnanir sem vinna að framgangi þessara laga. Minni hlutinn telur að ekki sé búið að greina nægilega vel hvaða áhrif frumvarpið hefur á úrgangsmál í heild sinni þegar efnisreglur tilskipunarinnar eru lögfestar í áföngum eins og hér er um að ræða. Úrgangsmál eru flókinn málaflokkur og breytingar á einu sviði geta haft ófyrirséð áhrif á öðrum sviðum innan kerfisins.

Minni hlutinn vekur athygli á því að stefnt er að framlagningu frumvarps um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs á haustþingi 2020. Þykir minni hlutanum því eðlilegt að þetta frumvarp sé unnið samhliða því frumvarpi og þar með sé unnt að ganga úr skugga um að ákvæði frumvarpanna beggja séu samrýmanleg.

Með vísan til framangreindra atriða telur minni hlutinn ótímabært og óskynsamlegt að lögfesta þær efnisreglur tilskipunarinnar sem kveðið er á um í frumvarpinu og ætla má að séu ekki til annars fallnar en að auka á flækjustig regluverksins enn frekar. Betur færi á því að endurskoða regluverkið og leggja fram efnisafmörkuð frumvörp á sviði úrgangsmála, þar á meðal sérlög um plastvörur. Beinir meiri hlutinn þeim ábendingum til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að leitast við að móta heildstæða stefnu í málaflokknum öllum til hagsbóta, fyrir almenning, fyrirtæki og stjórnvöld.

Á það var bent fyrir nefndinni að yrði frumvarpið að lögum væri ráðherra fengin víðtæk og opin heimild til nánari útfærslu í reglugerð á þeim kröfum sem lagðar eru á herðar framleiðendum og öðrum er lögin varða, t.d. um merkingar einnota plastvara, um lágmarkshlutfall endurunnins plasts í einnota plastflöskum fyrir drykkjarvörur, um töluleg markmið fyrir söfnun á veiðarfærum sem innihalda plast, um frekari skyldur í tengslum við sölu eða afhendingu einnota plastvara o.fl., eins og sjá má t.d. í 3. gr., 3. mgr. b-liðar og 2. mgr. c-liðar 5. gr. frumvarpsins. Með svo opinni heimild hafi ráðherra í raun verið framselt löggjafarvald til setningar stjórnvaldsfyrirmæla sem geti haft verulega íþyngjandi áhrif á alla þá aðila sem þessi efni varðar. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni og telur að gjalda beri varhuga við því víðtæka valdaframsali til ráðherra sem nefnd ákvæði frumvarpsins fela í sér.

Herra forseti. Í áliti meiri hlutans er mikilvægi þess að frumvarpið nái fram að ganga þrátt fyrir tilskipun (ESB) 904/2019 hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn og aðeins standi til að lögfesta hluta efnisreglna hennar rökstutt með vísan til þess fyrirsjáanleika og svigrúms sem gefa þarf almenningi og atvinnulífi til að aðlagast nýjum reglum áður en þær taka gildi. Eru það sömu rök og fram komu í greinargerð með frumvarpinu.

Í umsögnum sem nefndinni bárust frá fulltrúum atvinnulífsins og samtökum sveitarfélaga er þvert á móti, herra forseti, lagt til að lögfestingu frumvarpsins verði frestað þar til niðurstaða liggur fyrir um gildistöku tilskipunarinnar innan EES og EFTA-ríkjanna og til að hægt verði að vinna málið betur á vettvangi stjórnvalda.

Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur það skjóta skökku við að rökstyðja framgang frumvarpsins með vísan til fyrirsjáanleika og svigrúms þegar liggur fyrir að helstu hagsmunaaðilar, sem almennt fagna markmiðum frumvarpsins, telja ráð að staldra við og vanda betur til verka. Ljóst er að atvinnulífið þarf að ráðast í viðamikinn undirbúning með tilheyrandi kostnaði verði frumvarpið að lögum. Þegar litið er til þeirrar óvissu sem hér hefur verið bent á, auk nefndra annmarka á frumvarpinu, leggst minni hlutinn gegn framgangi málsins.

Fyrir nefndinni var rætt um þær staðgönguvörur sem ætla má að komi á markað í stað þeirra einnota plastvara sem frumvarpið nær til. Á það var bent að með frumvarpinu væru sköpuð skilyrði fyrir markaðssetningu vara sem hingað til hafa verið úr plasti en verði framvegis framleiddar úr PHA-fjölliðum sem eru ekki taldar hafa verulegan umhverfisávinning umfram hefðbundið plast. Það fari gegn markmiðum frumvarpsins að bjóða upp á slíka leið fram hjá ákvæðum þess. Þá var á það bent að staðgönguvörur einnota plastvara væru ekki einvörðungu margnota heldur einnig einnota vörur úr öðru efni en plasti, t.d. pappa eða við. Þessar vörur væru jafnan mun dýrari í innkaupum en plastvörur og þar af leiðandi hækki rekstrarkostnaður sem óhjákvæmilega lendir að lokum á neytendum.

Að mati minni hlutans þarf að leysa úr framangreindum vafaatriðum áður en efnisákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904 eru lögfest í íslenskan rétt og í því sambandi telur minni hlutinn rétt að bíða eftir nefndum viðmiðunarreglum ESB, bíða eftir þessum reglum sem fjalla um hvað skuli teljast til einnota plastvara, hvort tilskipunin taki breytingum við upptöku í EES-samninginn og hvernig efnisreglur hennar verða útfærðar í öðrum EFTA-ríkjum.

Minni hlutinn, sem er skipaður þeim sem hér talar og hv. þingmanni og formanni umhverfis- og samgöngunefndar, Bergþóri Ólasyni, leggur því til að frumvarpið nái ekki fram að ganga.