131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Uppgreiðslugjald.

87. mál
[14:43]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsti liður fyrirspurnarinnar lýtur að túlkun laga og um þetta atriði eru skiptar skoðanir. Bankarnir og aðrar lánastofnanir hafa talið sér heimilt að áskilja sér uppgreiðslugjald en ASÍ og Neytendasamtökin hafa opinberlega dregið í efa að slíkar þóknanir samrýmist lögum um neytendalán. Fram hefur komið í fjölmiðlum að kærur hafi verið sendar til Samkeppnisstofnunar og Fjármálaeftirlits.

Úrskurðarvald um þessi atriði og túlkun laga er að sjálfsögðu hjá eftirlitsaðilum og dómstólum en ekki hjá ráðherra. Rétt er hins vegar að benda á að í 16. gr. núgildandi laga um neytendalán er uppgreiðslugjald ekki bannað berum orðum og er því vandséð að lánasamningar um slíka þóknun séu andstæðir lögunum. Þessi skoðun fær stoð í gögnum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvað varðar tilskipun um neytendalán sem íslensku reglurnar eru byggðar á. Dönsk lög um neytendalán hafa einnig verið túlkuð á sama veg en þau hafa að geyma svipuð ákvæði.

Hvað varðar annan lið fyrirspurnarinnar er rétt að taka fram að í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er nú verið að vinna að þessum málum. Þann 14. september sl. skipaði ég nefnd til að vinna að samkomulagi um lánveitingar og mun hún m.a. fjalla um uppgreiðslugjald. Markmið með skipun nefndarinnar er að stuðla að bættum viðskiptaháttum og kveða á um lágmarksvernd í viðskiptum neytenda við lánveitendur. Um er að ræða útvíkkun á núgildandi samkomulagi um notkun ábyrgðarskuldbindinga sem gert var árið 2001. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða, Sambands íslenskra tryggingafélaga, Landssamtaka lífeyrissjóða, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Íbúðalánasjóðs, Neytendasamtaka og viðskiptaráðuneytis.

Þrátt fyrir að uppgreiðslugjald sé ekki alfarið bannað hér á landi, þó um það sé deilt, leiða almenn sanngirnisrök og ýmis lagaákvæði til þess að lánastofnun hafi ekki ótakmarkað svigrúm í þessum efnum. Uppgreiðslugjald verður að vera hófstillt og í tengslum við þann kostnað sem fellur á lánastofnunina vegna uppgreiðslunnar. Bankar og aðrar lánastofnanir sem taka uppgreiðslugjald verða því að færa rök fyrir þeirri ákvörðun sinni og sýna fram á að kostnaður fylgi uppgreiðslunni.

Uppgreiðslugjald er helst hægt að rökstyðja með tilliti til hagsmuna lánveitenda við þær aðstæður þegar vextir lækka á langtímalánum með föstum vöxtum. Þá má einmitt búast við miklum uppgreiðslum, m.a. vegna endurfjármögnunar eins og við höfum orðið vitni að á síðustu mánuðum. Vel kemur til greina að settar verði frekari skorður við uppgreiðslugjaldi en slíkar tillögur verður að skoða vel og vinna í samráði við hagsmunaaðila. Einnig þarf að taka mið af vinnu sem á sér stað innan Evrópusambandsins hvað varðar nýja tilskipun um neytendalán.

Svarið við þriðja lið fyrirspurnarinnar er játandi, þ.e. að það þekkist í nágrannalöndum okkar að fjármálafyrirtæki hafi heimild til innheimtu uppgreiðslugjalds. Lausleg könnun leiddi í ljós að óvíða er uppgreiðslugjald alfarið bannað en í sumum löndum hafa verið settar takmarkanir á slíkar þóknanir svo sem í Noregi, á Bretlandseyjum og í Benelúxlöndunum. Í Danmörku gilda svipuð ákvæði og hér á landi og ekkert bann er við slíku gjaldi.