138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nýtt frumvarp sem ríkisstjórnin leggur til vegna Icesave-fyrirvaranna. Mig langar að rifja upp að þegar þeir voru samþykktir hér 28. ágúst sagði hæstv. utanríkisráðherra að þeir rúmuðust innan samningsins sjálfs. Það sem þyrfti væri skapandi hugsun til þess að koma þeim á framfæri, það væri það sem stæði út af.

Nú hins vegar lítur málið þannig út fyrir mér að hæstv. utanríkisráðherra beitir ásamt ríkisstjórninni og mörgum öðrum þessari skapandi hugsun á bæði þjóð og þing til þess að telja okkur trú um að þessar breytingar á fyrirvörunum rúmist innan þeirra fyrirvara sem fyrir voru. Þetta er því í raun og veru að verða hálfgerður skrípaleikur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Mig langar líka að rifja það upp, af því að hæstv. utanríkisráðherra var hér í andsvörum við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, um það sem hann sagði, að þeir fyrirvarar sem núna væru hefðu eiginlega verið styrktir. Það er mjög mikil þversögn í því að fyrirvararnir, sem ekki eru samþykktir af hálfu Breta og Hollendinga, komi til baka þannig að þeir séu betri fyrir okkur í raun og veru. Það er hreint með ólíkindum að við skulum ræða þetta á þessum nótum.

Síðan vil ég minna hæstv. utanríkisráðherra á að hér sagði hv. þm. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, að það hefði valdið honum mjög miklum vonbrigðum að fyrirvararnir hefðu ekki verið samþykktir úti eins og á Alþingi. Telur hann að þeir fyrirvarar sem núna eru og þær breytingar sem á þeim hafa verið gerðar séu miklu veikari. Þar deilum við, ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, skoðunum.

Síðan langar mig líka, frú forseti, að koma inn á það að þegar við ræddum þetta hér fyrst í vor kom strax fullt af jáum frá mjög mörgum þingmönnum sem ekki höfðu haft aðstæður til þess að kynna sér samninginn frekar en við hin. Ég er ekki að saka þá um að hafa ekki lesið hann en þeir höfðu bara ekki aðstæður til þess að kynna sér hann. Samt sögðu þeir já. Allt í lagi, grænt ljós frá Samfylkingunni, ekkert mál.

Hvað gerðist síðan í umræðunum? Hér kom hæstv. félagsmálaráðherra og sagði: Auðvitað eigum við að samþykkja þennan samning, þennan landráðasamning, vegna þess að efnahagslegu viðmiðin, svokölluð Brussel-viðmið, voru fallin, þ.e. við áttum að samþykkja hann og af því að hann var fallinn átti að duga að taka upp viðræður aftur. Þannig voru rökin í vor.

Hér kom einn hv. þingmaður, Magnús Orri Schram, og sagði: Þessi samningur er góður. Af hverju sagði hann það? Jú, það lá fyrir að Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, hafði skipt um skoðun. Það voru hans rök í málinu. Þess vegna hlaut þessi samningur að vera góður. Það er mikilvægt að við höldum því til haga vegna þess að það eru mjög margir hér í þingsal sem tala eins og það sé bara enginn morgundagur. Hér þurfa menn ekki að standa við það sem sagt er, það er þannig. Það er mjög mikilvægt og alvarlegt að fjölmiðlarnir haldi þessu ekki til haga og rukki menn um það sem þeir sögðu hér því að menn komast upp með það.

Síðan langar mig líka að rifja það upp að þegar búið var að samþykkja fyrirvarana sögðu margir þingmenn: Við vildum alltaf setja fyrirvara. Auðvitað vildu þeir setja fyrirvara þó svo að þeir hefðu sagt já í upphafi. Þeir voru ekki rukkaðir um þau svör. Hvers vegna skyldu þeir hafa skipt um skoðun, frú forseti? Það var vegna þess að hv. þingmenn höfðu áttað sig á því að samningurinn eins og hann var, var landráðaplagg. Þess vegna höfðu þeir áttað sig á þeim miklu hættum sem þar voru inni. Hv. þingmenn sögðu: Auðvitað áttum við að setja fyrirvarana, og tóku meira að segja að skrifa lærðar greinar um að þeir vildu setja þá þó svo að þeir hefðu sagt allt annað hér í þingsal á undan. Þannig var grunnhugsunin í þessu.

Síðasta „flopp“ hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli var að halda því fram og reyna að færa fyrir því rök að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi verið einhver vendipunktur í þessu máli vegna afstöðu Breta og Hollendinga. Hv. þingmaður var það þegar hann reyndi sem hæstv. heilbrigðisráðherra að stoppa þetta og þæfðist við, en hann var það ekki eftir að hann sagði af sér. Að Bretar og Hollendingar hafi skipt um skoðun eftir að hann sagði af sér, þvílík endemis vitleysa. Það er alveg hreint með ólíkindum að halda því fram.

Ég verð að segja það, frú forseti, að ég ætlast til þess að hæstv. ríkisstjórn hafi lesið samningana yfir núna við breytingarnar bara vegna þess að þeir eru mun minni að umfangi en þeir voru í upphafi. Þetta segi ég í ljósi ummæla hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem sagði að hæstv. ríkisstjórn, alla vega megnið af henni, hefði bara ekki lesið samninginn í upphafi. Hún sagði það orðrétt: Þeir lásu nefnilega ekki samninginn. Ég tel það og ég veit það reyndar að hún hefur mun meiri og betri upplýsingar úr Stjórnarráðinu en ég þannig að ég ætlast til þess að hún hafi vitað það.

Ég ætla ekki að fara efnislega ofan í þær breytingar sem hér er verið að gera núna, við gerum það í vinnu fjárlaganefndar. Lagalegu fyrirvararnir, hvernig eru þeir? Jú, þeir eru þannig að við föllum ekki frá rétti okkar um að viðurkenna að við berum ábyrgð á því að greiða reikningana vegna gallaðrar Evrópusambandslöggjafar.

Hins vegar segir í hinum fyrirvörunum að ef niðurstaðan yrði sú væri hægt að takmarka ríkisábyrgðina við þá niðurstöðu. Núna er það ekki hægt. Þá skulu teknar upp viðræður. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Það er bara þannig, hæstv. ráðherra, að það var hægt að takmarka ríkisábyrgðina miðað við niðurstöðu dómstólanna en það er ekki hægt lengur. (Gripið fram í: Alþingi ræður.) Það er bara þannig, þú verður þá bara að lesa þetta yfir, það er svoleiðis.

Síðan komum við að efnahagslegu fyrirvörunum sem voru reyndar, eins og þm. Margrét Tryggvadóttir benti á áðan, tær snilld. Þeir voru tær snilld í því efni að þeir tryggðu okkur og þeir voru einmitt innan þessara svokölluðu Brussel-viðmiða. Þeir tryggðu að við gætum reist við efnahagslífið hér. Síðan er líka hnykkt á því í samningnum, og ég skal fúslega viðurkenna það, að þegar við förum eitthvað niður getum við tekið upp viðræður, það er alveg hárrétt. Hins vegar hræðist ég það ef við lendum í það mikilli niðursveiflu að við þurfum alltaf að greiða vextina en ég vona svo innilega að svo verði ekki. Ég er ekki með neinar heimsendaspár og ég vona svo sannarlega miðað við þetta að við getum greitt þetta, það er mín einlæga von og trú. Ég er hins vegar hræddur við það. Ég ætla engum það, hvorki hæstv. fjármálaráðherra né nokkrum öðrum, að gera þetta öðruvísi en þannig að menn hafi trú á því að þetta gangi eftir en þetta er hins vegar ákveðin trygging, það er nú einu sinni þannig.

Síðan komum við að svokölluðu Ragnars Halls-ákvæði, ákvæði sem er kennt við hann. Um hvað fjallaði það? Það fjallaði um lagskiptar kröfur. Gerður var samningur við Breta og Hollendinga um hvernig skipta átti úr þrotabúinu. Í stuttu máli, svo ég fari nú ekki í einhverjar útlistanir á því, fjallaði Ragnars Halls-ákvæðið einfaldlega um að hér væri farið að íslenskum lögum, það fjallaði ekki um annað. Það fjallaði bara um að þrotabú Landsbankans, sem var íslenskt fyrirtæki, færi eftir íslenskum lögum. Það var í raun og veru það sem var. Síðan var gerður samningur. Svo þustu menn fram á ritvöllinn, m.a. aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, Indriði H. Þorláksson, og sögðu að þetta væri bara píp og rugl, það lægi alveg fyrir hvernig þetta væri. Þetta yrði gert með þessum hætti og allir vissu hvernig lögin væru.

Þá spyr ég: Hvers vegna var þá gerður sérstakur samningur um hvernig skipta átti úr þrotabúinu ef þetta var allt saman klappað og klárt? Þegar öllu er á botninn hvolft stendur röksemdafærsla margra hér í þessu máli ekki, það stendur ekki steinn yfir steini í því, það er bara svoleiðis.

Síðan langar mig að koma að því: Hvar byrjuðum við í raun og veru hér í vor? Við byrjuðum ofan í skotgröfunum, það er staðreynd. Það var farið í þessa vegferð með því að skipa þessa samninganefnd og það var líka gert í tíð fyrri ríkisstjórnar. Við áttum að skipa þverpólitíska nefnd sem skipuð væri þverpólitískt af sérfræðingum. Við áttum að fá til þess menn eins og t.d. Lee Buchheit, vana samningamenn til þess að leiða þessa vinnu til þess að koma skilaboðunum rétt inn í þjóðfélagið. Við áttum ekki að falla í þessa gryfju. Fyrrverandi ríkisstjórn féll í þessa gryfju, núverandi ríkisstjórn féll í þessa gryfju og það er það sem við áttum að læra af.

Hins vegar gerðist það í sumar í meðförum málsins í fjárlaganefnd að menn náðu að komast upp úr pólitískum hjólförum. Það náðist mjög góð samstaða í fjárlaganefnd, málvið var afgreitt úr nefndinni með öllum nema einu atkvæði, tíu atkvæðum, og allir greiddu fyrirvörunum atkvæði sitt. Síðan koma hv. þingmenn hér og segja að við sjálfstæðismenn höfum ekki fengið leyfi frá einhverjum til þess að greiða ríkisábyrgðinni endanlegt samþykki. Við greiddum öllum fyrirvörunum atkvæði okkar og við stóðum að þeim úr nefndinni. (Utanrrh.: Þið svikuð samninginn.) Nei, við sögðum bara nei vegna þess … (KÞJ: Nei.) Hæstv. utanríkisráðherra, ég skal bara halda því til haga vegna … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Gefið hljóð í salnum.)

... vegna þess að ríkisábyrgðin var svo samtvinnuð þessum samningi. Ég kom inn á það hér áðan og spurði í andsvari hæstv. utanríkisráðherra um allt sem er svo ósanngjarnt í þessum samningi. Að borga vexti frá 1. janúar, 35 milljarða, 3,5 milljarða í umsýslukostnað, það er dálítið gott tímakaup. Það væri svo sem hægt að nota þá peninga til þess að setja inn í velferðarkerfið og menntakerfið. Ég mundi vilja hafa þá og skipta þeim út í fjárlaganefnd þó að aðrir sjái ekki eftir þeim og segi: Jú, þetta verður samningsatriði og það er nú ekki nógu gott.

Það sem við klikkuðum á er að við erum komin aftur ofan í skotgrafirnar núna, það er það sem stendur upp úr. Hefðum við bara borið gæfu til þess og haft vit á að fylgja þeirri samstöðu Alþingis sem var eftir afgreiðslu fjárlaganefndar í sumar um fyrirvarana, hefðum við skipað um þá þverpólitíska nefnd og farið og kynnt málstað okkar Íslendinga — við brenndum okkur á því oft, bæði fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn, að gera það ekki. Hefðum við bara haft vit til þess að gera það með þeim hætti og fara og kynna málstað okkar Íslendinga á erlendri grundu, sem við áttum svo sannarlega að gera og við sjálfstæðismenn kölluðum mjög eftir því. Við höfum gagnrýnt það mjög að þessu skuli ekki vera fylgt eftir. Auðvitað átti Alþingi Íslendinga að taka sig saman og fara öll sem einn maður og ræða við erlenda þjóðhöfðingja og segja: Þetta er það sem við getum gert, þetta er það sem íslensk þjóð vill gera. Hefðum við gert það værum við kannski ekki á þessum stað núna þegar hæstv. ríkisstjórn ásamt mörgum öðrum hér inni notar skapandi hugsun til þess að telja þjóðinni trú um að þetta sé bara allt í fína lagi. Okkur hefði kannski miðað betur áfram hefðum við gert það.

Það er alveg grundvallaratriði í öllum svona hlutum að ef við ætlum að læra verðum við að byrja á því að viðurkenna þau mistök sem við höfum gert. Fyrrverandi ríkisstjórn gerði mistök, núverandi ríkisstjórn gerir mistök, við verðum að viðurkenna þau. Við áttum að fara öðruvísi að samningaferlinu af því að við erum öll hér fulltrúar íslensku þjóðarinnar, alveg sama hvar við stöndum í pólitík. Það á ekki að vera neitt deiluefni um að við eigum að verja hana saman. Það er markmið okkar og það er skylda að gera það en ekki að fara í þennan frasaleik sem við erum nú í, því miður.

Ég virði þær skoðanir manna þegar þeir segja að þeir meti það svo, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði hér áðan, að það sé skynsamlegra að samþykkja þennan samning en að gera eitthvað annað. Ég virði þá skoðun en þá á hann að segja það bara umbúðalaust, ég geri líka kröfu um það, frú forseti. Margir mættu taka hann sér til fyrirmyndar en hér kemur hver þingmaðurinn upp á fætur öðrum, meira að segja hæstv. ráðherrar, og vitnar í minnisblað sem gert var á milli Hollendinga og Íslendinga um það hvernig staðið skuli að lyktum.

Það minnisblað var kallað til baka og ekki bara það, samninganefndin var sérstaklega spurð um það í fjárlaganefnd: Var þetta einhvern tíma eitthvað sem hrjáði ykkur í samningaferlinu? Þá sögðu samninganefndin og formaður hennar: Nei, þetta háði okkur ekkert, vegna þess að þetta er minnisblað sem var þegar búið að afturkalla. Síðan kemur hér hver þingmaðurinn á fætur öðrum og heldur að hann samþykki þennan samning út af þessu minnisblaði. Það eru þessar kröfur sem ég geri, að menn fari hér í málefnalegar umræður um það hvernig þeir vilja leysa málin en ekki fara í (Utanrrh.: Þetta er aldeilis málefnalegt hjá þingmanninum.) þá vitleysu sem hér hefur verið í gangi.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara mjög efnislega í þessa fyrirvarabreytingu hér. Við munum taka það fyrir í fjárlaganefnd og það skilar engum árangri, hvorki fyrir mig né neinn annan, að fara að rökræða hér um lögfræði og vera með hver með sína túlkunina á því. Við munum kalla fyrir fjárlaganefnd þá einstaklinga sem hafa vit og þekkingu og eru óháðir og munu gera það með þeim hætti og þeir leggja mat sitt á það. Þar munum við fara yfir það. Ég krefst þess líka að ef menn sjá að þar megi eitthvað betur fara taki þeir höndum saman um að gera þær breytingar sem menn telja skynsamlegar.

Að lokum vil ég segja það að ég heiti á ríkisstjórnina og alla sem hér eru inni um að ég mun leggja mitt af mörkum til þess að vinna málinu gagn í fjárlaganefnd. Ég mun ekki reyna að leggjast ofan í skotgrafir í pólitískum tilgangi. Ég gerði það ekki í vinnunni minni í sumar og ég mun ekki gera það núna í þeirri vinnu sem fram undan er en ég krefst þess, frú forseti, að menn ræði hér málin málefnalega.

Að lokum ætla ég þó að segja þetta: Það er ekki einfalt að leysa þetta mál en við eigum að standa saman, Alþingi Íslendinga, (Forseti hringir.) sem fulltrúar þjóðarinnar allrar en ekki vera hér í pólitískum leikjum. (Gripið fram í.)