141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

staða ESB-umsóknarinnar.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í ágúst sl. var hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið um þann vilja sinn að endurmeta Evrópusambandsumsóknina. Þar sagði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra meðal annars, með leyfi frú forseta:

„Það er einboðið að það er kominn tími til að endurmeta stöðuna nú í aðdraganda kosninga vegna þess hvernig tímaásinn er, vegna stöðu mála í Evrópu og út af fjölda annarra þátta.“

Þetta er í fullu samræmi við ummæli sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lét falla í óundirbúnum fyrirspurnatíma í maímánuði þar sem hæstv. ráðherra sagði, með leyfi frú forseta:

„… ég tel að slík atkvæðagreiðsla þurfi að eiga sér stað eigi síðar en við næstu þingkosningar, þ.e. að þjóðin geti tekið afstöðu til þeirra efnislegu þátta sem þá liggja fyrir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins …“

Nú deili ég þeirri skoðun með hæstv. ráðherra að margt hefur breyst innan Evrópusambandsins. Þar getum við tekið til að mynda þau fjöldamótmæli sem nú eru í Evrópu, ástandið í Grikklandi, ástandið á evrusvæðinu almennt, makríldeiluna sem við eigum í við Evrópusambandið og svona mætti áfram telja. Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er hvað nákvæmlega ráðherra eigi við með þessum ummælum sem féllu síðast í ágústmánuði og eru sambærileg þeim sem féllu hjá hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur og hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni. Eigum við von á því að það verði einhver stefnubreyting í þessu máli? Eigum við von á því að það verði uppljóstrað á næstunni hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál fer fram? Eigum við von á því að hæstv. ráðherra muni jafnvel styðja einhverjar þeirra tillagna sem liggja fyrir þinginu um þjóðaratkvæðagreiðslur um málið?