144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt. Þetta eru háleit markmið sem hv. þingmaður nefndi í sinni spurningu. Þetta mál snýst um það, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að hlutverk hins opinbera á að vera að tryggja íbúunum ákveðna innviði. Það eru vegir, löggæsla, heilbrigðisþjónusta, menntun og fleiri þættir sem við erum flest sammála um að sé hlutverk hins opinbera að tryggja.

Ég lít svo á að raforka sé í þessu samhengi innviðir, að það eigi ekki að skipta máli hvar á landinu þú stingur rafmagnstækjunum þínum í samband eða hringir úr símanum þínum, verðið eigi að vera hið sama óháð því hvar þú ert.

Auðvitað snýst þetta líka um jöfnun búsetuskilyrða. Og þá, af því að við hv. þingmaður erum bæði miklir áhugamenn um frelsi einstaklingsins, er það einmitt frelsi einstaklingsins að velja sér búsetu, það verði að tryggja eins og hægt er að þeir innviðir sem við göngum flest að sem sjálfsögðum séu til staðar, líka í hinum dreifðu byggðum landsins. Að þessu miðar frumvarpið, þetta snýst um að tryggja innviði.

Hvað varðar húshitun á köldum svæðum er rétt að um það gilda lög sem ég fór yfir áðan sem tryggja niðurgreiðslur, en ég get glatt hv. þingmann með því að á þeim fjárlagalið er fjármunum einmitt ráðstafað til þess að reyna að fækka þeim sem þurfa á niðurgreiðslum að halda, (Forseti hringir.) með því að nýta tækni og leita að tækifærum til þess að hita húsin með hagkvæmari hætti.