144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

154. mál
[17:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir mikilvægi þess með hv. þingmanni að við látum á það reyna hvort við getum ekki fengið þessa viðurkenningu á skyrið. Í II. kafla laganna er talað um afurðarheiti sem vísar til uppruna. Það getur svo sem orðið flókið ef allir, alla vega nágrannaríki okkar, benda á að þeir hafi líka kunnað þetta á sínum tíma. Til landsvæðis er kannski erfiðara.

Samkvæmt skráðu afurðarheiti aftur á móti ætti það að vera, eða hljómar alla vega þannig, og afurðarheiti sem vísar til hefðbundinnar sérstöðu eða verndar samkvæmt skráðu heiti, samhljóða afurðarheiti, ég er að telja upp fyrirsagnir í einstökum greinum sem þetta getur fallið undir. Það er án efa talsvert í okkar höndum hversu langt við viljum ganga. Ég tel að við eigum að ganga býsna langt til að ná skyrinu sem skráðu hér á þetta. Ég get nefnt sem dæmi, þó að það hljómi sérkennilega, að íslenski hesturinn er skráður með Ísland sem upprunaland. Mörgum finnst það sérkennilegt en þetta er ekki sjálfgefið. Það eru til hestakyn frá Suður-Ameríku sem eiga sér uppruna í Evrópu. Ætli það séu ekki um 80 þús. íslensk hross til á Íslandi en það gætu verið til 170 þúsund í öðrum ríkjum og það jafn mörg og á Íslandi eins og er í Þýskalandi. Ef við pössum ekki upp á að vernda þann uppruna sem við höfum, t.d. uppruna íslenska hestsins, og göngum ekki eins langt og við mögulega getum varðandi skyrið er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þá er ekki ólíklegt að aðrir munu reyna að ná slíkri stöðu með vöruna, eins vinsæl og hún er. Ég tel að hér sé komið tæki til að gera þetta og vænti þess að þingið muni fjalla hratt og vel um málið þannig að við getum farið að láta á það reyna hvort við getum verndað skyr sem sérstakt vottað upprunaheiti frá Íslandi.