136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:09]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við erum áfram að ræða um stjórnarskrá lýðveldisins. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir frumvarpið sem slíkt, fór yfir einstök atriði frumvarpsins og spurði margra spurninga sem ekki hefur verið svarað enn, herra forseti, og ekki síst um stjórnlagaþingið en í því eru gríðarlega mörg atriði algerlega óljós og hefur ekki verið svarað til um. Það eru margir þættir bæði varðandi kosningu til stjórnlagaþingsins, hvernig því verður stjórnað o.s.frv. Síðan sé ég að í nefndaráliti frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál er verið að ræða um kosningu til stjórnlagaþingsins og þar stendur, með leyfi forseta, ef ég má lesa það upp:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Það er eins gott að það verði ekki sóttir einhverjir Norðmenn til að sitja þar. Það væri kannski eftir því sem víða er gert í kerfinu í dag.

„Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar.“ — Það er verið að tala um að 41 eigi að sitja á þessu þingi en ekki þjóðin öll. — „Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Vægast sagt finnst mér þetta afskaplega óljóst, herra forseti, hvað hér er átt við. Eigum við kannski eftir að sjá fram á að það verði hreinlega enginn af landsbyggðinni á þessu stjórnlagaþingi? Það verði einvörðungu þekktir aðilar úr þjóðfélaginu, héðan af höfuðborgarsvæðinu og enginn af landsbyggðinni vegna þess að þetta er gersamlega skilið eftir opið í því frumvarpi sem liggur fyrir og það er ekki hægt að sjá að það sé neitt gengið frá þessum málum. Þess vegna má ætla að það verði enginn fulltrúi landsbyggðarinnar á þessu stjórnlagaþingi. Svo er talað um það aftur og aftur að þetta eigi að vera opið, lýðræðislegt og allir eigi að koma að málum. Það er bara einfaldlega ekki þannig. Það er verið að skauta hægt og rólega í kringum það í þessari grein að hugsanlega þurfi, svona eftir á þegar menn eru farnir að skoða málið betur, að hugsa til þess að landsbyggðin eigi að koma þarna að málum. En það er gersamlega skilið eftir og mér sýnist því málið verða þannig að það verði enginn á þessu stjórnlagaþingi af landsbyggðinni. Það er einfaldlega þannig. Það er á engan hátt ásættanlegt og það þarf að ráða bót á því. Það þarf að breyta eins og ég legg til í raun, herra forseti, að þetta mál allt verði tekið af dagskrá, sett í nefnd aftur, unnið betur og tekið fyrir á næsta þingi. Það er ekkert vit í því að vera að afgreiða þessi mál í svo mikilli ósátt sem raun ber vitni, algerri ósátt. En það er merkilegt nokk að það er vilji þeirra sem hér standa að minnihlutastjórn, að afgreiða þetta í ósátt og hafa ósætti um stjórnarskrá lýðveldisins á Alþingi og það er mjög slæmt mál.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur er fjalla um vald, handhafa ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisins gagnvart almenningi í landinu. Mér finnst að sú minnihlutastjórn sem situr hér skauti algerlega yfir þetta og þessi grunnlög samfélagsins sem við erum að fjalla um skipti engu máli. Það er ekki verið að fjalla um vatn eða einkavæðingu einhverra ríkisfyrirtækja eða einhver smámál. Nei, aldeilis ekki. Þetta eru grunnlög samfélagsins sem við erum að fara yfir.

Mér finnst, herra forseti, að það vald sem stundum hefur verið kallað þriðja og fjórða valdið í samfélaginu, sem eru fjölmiðlarnir, hafi ekki sinnt verkefni sínu að kynna fyrir þjóðinni hvað hér um ræðir. Það hefur ekki á nokkurn hátt komið fram í fjölmiðlum á Íslandi hvað við erum að tala um. Það sem fyrst og fremst hefur komið fram er að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir málþófi. Það er verið að tala um það í fjölmiðlunum að verið sé að standa fyrir málþófi vegna þess að við sjálfstæðismenn séu að einhverju leyti á móti málinu. (Gripið fram í.) Jú, að sjálfsögðu. En við erum að reyna að fá þingið og þjóðina til að skilja hvers vegna og hvað það er sem við erum á móti og þar segi ég klárt: Fjölmiðlarnir hafa ekki staðið sig í því að kynna fyrir þjóðinni hvað það er sem við erum að ræða hér og hvar ágreiningurinn er í þessu máli. Það er afar slæmt og mjög sérstakt að fjölmiðlarnir hafa ekki lagt sig meira fram um að kynna fyrir þjóðinni hvað hér um ræðir. (Gripið fram í: … heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag … ) (Gripið fram í.) Ég vænti þess, herra forseti, að vinstri grænir sem gjamma hér fram í fái að komast á dagskrá á eftir en þeim er einmitt illa við það sem ég er að tala um og þess vegna þola þeir ekki að um þetta sé talað. Þá er um að gera, annars vegar að fara úr salnum eða fá sér örlítið í nefið til að geta afborið þetta. Fjölmiðlarnir á Íslandi hafa ekki staðið sig í því að kynna þetta mál fyrir samfélaginu og það er slæmt.

Það er nefnilega þannig að hér er um mikið valdaafsal á Alþingi að ræða. Það er verið að útvista, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, það er verið að útvista verkefnum frá Alþingi Íslendinga til þings sem enginn veit hvernig á að stjórna og það veit enginn í raun hvernig á að fara með niðurstöður frá því þingi. Það er staðreyndin. Ég minnist þess hér þegar verið var að útvista verkefnum frá ríkisstofnunum þá kom hæstv. heilbrigðisráðherra upp sem formaður BSRB og talaði um það lengi að það mætti ekki útvista verkefnum frá ríkisstofnunum til einkaaðila en hér er verið að útvista verkefnum frá Alþingi sem kosið er af þjóðinni og þeirri grunnstofnun samfélagsins sem Alþingi er, löggjafarvaldið. Það er verið að útvista verkefnum. Það er verið að útvista því að stjórnarskráin sem eru grunnlögin eigi að vinna af nýju þingi, og það er þannig farið með málið að þingið leitar umsagnar hjá Alþingi. Að hugsa sér. Það á að leita umsagnar þjóðkjörinna fulltrúa. Þetta er annars vegar mikið valdaafsal þingsins sem fyrirfinnst hvergi í öðrum þjóðþingum. Þetta mál gengur auðvitað ekki upp og það er þess vegna sem við ræðum þetta og viljum fara yfir málið.

Það er talað um málþóf eins og ég sagði áðan, herra forseti. Við erum þó ekki búin að ræða nema brot af þeim tíma sem einstaka þingmenn stjórnarliðsins minni hluta stjórnarinnar ræða á vetrum. Hæstv. fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar í fleiri klukkutíma, tugi klukkutíma á hverjum vetri. Hann á metið í ræðustól á Alþingi síðustu 17 ár. Það hefur enginn talað meira en hann. Hæstv. forsætisráðherra talaði í einni ræðu rúmar 10 klukkustundir. Það var ekki málþóf, nei, nei, það var ekki málþóf. Um hvað var talað í 10 klukkustundir? Það veit það enginn í dag, sennilega. (Forsrh.: Húsnæðismál, var það ekki?) Já, það var einmitt um húsnæðismál. En það minnist þess enginn. Og hvaða gagn hafði það þá? Við erum að ræða grunnlögin, stjórnarskrána. Þegar talað er um málþóf þá vil ég geta þess að þetta er önnur ræða mín varðandi stjórnarskrármálið. Fyrri ræðan var 40 mínútur og þessi er 20 mínútur. Svo kalla menn þetta málþóf. Það er algerlega út í hött að þingmenn fái ekki að tjá sig um svona viðamikið mál.

Þess vegna held ég, herra forseti, að við eigum að taka þetta mál af dagskrá, afgreiða það síðar, setja það í nefnd, vinna það betur, reyna að ná sátt um málið. Það undrar mig að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki taka af skarið og vera sá leiðtogi fyrir þjóðina á þeim tímum sem við upplifum nú að taka málið út af dagskrá og reyna að vinna það betur. Nógur er tíminn í sumar þegar bjart er allan sólarhringinn. Menn ættu að leggja sig fram um að reyna að ná sátt í málinu og fara yfir málið þá með tilliti til þess. Nei, í staðinn er verið að setja það á dagskrá aftur og aftur og halda frá dagskrá þingsins mörgum málum sem eru mjög mikilvæg fyrir samfélagið, mjög mikilvæg fyrir heimilin, fjölskyldurnar og fyrirtækin. Það eru mál sem bíða á dagskránni og eru búin að bíða alla vikuna í raun og menn skeyta engu um það og mikilvægi þeirra mála.

Hv. þingmaður kom upp áðan um fundarstjórn forseta, hv. þm. Pétur H. Blöndal, og talaði um gengi íslensku krónunnar, hvað væri að gerast þar. Hæstv. ráðherrar, það er enginn í þingsal, það er enginn, það kæra sig allir kollótta um málið. Er þetta ekki mikilvægara en svo að enginn er viðstaddur, það að ætla að breyta grunnlögum samfélagsins og afsala Alþingi þeim rétti að hafa með stjórnarskrána að gera, útvista því verkefni? Þvílík uppgjöf hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr að treysta ekki þjóðkjörnum þingmönnum á Alþingi Íslendinga til að vinna það mál. Nei, kergjan og þrjóskan er þvílík að það nær ekki nokkru tali hvernig menn vinna þetta mál.

Og fjölmiðlarnir eru í þagnarbindindi um málið. Hvers vegna í ósköpunum eru ekki teknir upp þættir, vandaðir fréttaskýringaþættir þar sem farið er ofan í málið þannig að þjóðin sjálf fái að vita um hvað málið snýst og þjóðin geti hugsað málið um páskahelgina og séð nákvæmlega hvernig málið liggur? Ég er sannfærður um það, herra forseti, að það eru fæstir í samfélagi okkar sem hafa kynnt sér málið og hafa haft tök á því að kynna sér málið. Ég er hins vegar með þykkan bunka, þykka möppu af gögnum sem eru umsagnir aðila vítt og breitt úr samfélaginu, úr fagsamfélaginu, af því að ég horfi á hv. þm. Atla Gíslason, úr samfélagi lögmanna þar sem menn eru á móti þeirri breytingu sem hér er verið að gera. (AtlG: Það er rangt. Það er beinlínis rangt, lestu umsagnirnar.) Það er ekki rangt. Ég hef lesið umsagnirnar og úrdrátt úr þeim umsögnum sem hér eru. Það er ekki þannig. Það er langtum meiri hluti þeirra (Gripið fram í.) sem gefa umsögn um þessar stjórnarskrárbreytingar eru á móti og menn segja: Takið þið tíma. Umsagnartíminn er of stuttur. Ég held að það sé rétt, herra þingmaður Atli Gíslason, það voru fimm virkir dagar gefnir til umsagnar um þetta viðamikla mál, grunnlög samfélagsins, fimm virkir dagar voru gefnir. Það eru allar umsagnir nema frá tveimur aðilum sem lúta að því að umsagnartíminn hafi verið of skammur og menn vilji skoða málin miklu betur.

En hvað er það virkilega sem gerir það að menn vilja fara svona flausturslega yfir málið og klára það í óeiningu? Hvað er það í raun og sanni? Er það bara að Framsóknarflokkurinn vildi koma stjórnlagaþingi á og hafði það sem sitt eina mál til að styðja þessa minnihlutaríkisstjórn? Eða er það eitthvað annað? Er það aðildin að Evrópusambandinu? Það er eitthvað annað að baki sem gerir það að verkum að mönnum liggur svona á og menn vilja kljúfa niður grunnstoðir samfélagsins, grunnlög samfélagsins? Það er verið að útvista grunnlögum samfélagsins frá Alþingi Íslendinga til stjórnlagaþings sem enginn veit enn hvernig á að kjósa til og hvernig á að starfa. Stjórnlagaþing á sjálft að útbúa sér reglu til að starfa eftir. (AtlG: Það er líka rangt.) Það er bara þannig. (ÁI: Ég held að hann ætti að kynna sér málið.) (Gripið fram í.) Já, þingmaðurinn hefur kynnt sér þessi mál.

Hér er einfaldlega verið að vinna flausturslega og í síðari ræðu minni um þetta mál ætla ég að lesa upp úr þeim umsögnum sem hér eru. Það er nógur tími til þess. Hér eru umsagnir og hér eru orðræður þeirra manna sem hafa gefið umsögn og margir af félögum mínum búnir að lesa upp úr þeim og ég ætla ekki að endurtaka það. Það eru margir búnir að lesa upp þær umsagnir sem hafa borist og þær eru nánast allar neikvæðar. Þar er sagt að málið sé flausturslega unnið og af fljótfærni og það þurfi að ná sátt um málið. Síðustu 50 ár hefur verið sátt um allar þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni. Nú vilja menn fara í breytingar, vitandi að ekki er sátt um málið og vitandi að það er ekki sátt úti í þjóðfélaginu. Umsagnaraðilar hafa ekki verið sáttir með þann hraða og þá fljótfærni sem hér liggur að baki. Þess vegna, herra forseti, er mjög mikilvægt að þessi mál verði kynnt fyrir þjóðinni og mér finnst skorta á að fjölmiðlarnir, ríkisfjölmiðlarnir auðvitað sérstaklega, það eru þeir sem við höfum eitthvað yfir að segja, kynni málið fyrir þjóðinni þannig að fólk viti hvað um ræðir varðandi stjórnarskrárbreytinguna og hver munurinn er á milli þeirra sem vilja að málið bíði og verði skoðað betur og þeirra sem vilja klára það.